Fótbolti

Slags­mál stuðnings­manna fyrir utan Ölver: „Allir með grímu fyrir and­litið og réðust á okkur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Víkingarnir voru snúnir við þegar stuðningsmenn Bröndby réðust skyndilega að þeim.
Víkingarnir voru snúnir við þegar stuðningsmenn Bröndby réðust skyndilega að þeim. skjáskot

Stuðningsmenn danska fótboltaliðsins Bröndby löbbuðu úr Víkinni á Ölver í Glæsibæ, í leit að slagsmálum og réðust á stuðningsmenn Víkings sem sögðu þeim að taka því rólega.

Stuðningsmenn Bröndby létu öllum illum látum eftir leikinn sem Víkingur vann 3-0 og ollu milljónatjóni en létu sér það ekki nægja. Eftir að hafa verið beittir piparúða voru þeir þyrstir í slagsmál og löbbuðu á Ölver, þar sem þeir vissu að stuðningsmenn Víkinga væru.

Hér má sjá stuðningsmenn Bröndby arka í átt að Ölver, úti á miðri götu í fylgd tveggja lögreglubíla. aðsend

Eðli málsins samkvæmt var þeim fylgt af lögreglu, sem kom í veg fyrir að slagsmál brytust strax út en eftir að lögreglan fór slapp fjandinn laus.

Lögreglan sá til þess að stuðningsmenn Bröndby kæmust ekki inn á Ölver.aðsend

Flestir stuðningsmenn Bröndby höfðu þá yfirgefið svæðið, þegar þeir sáu að ekkert yrði úr slagsmálum.

Stuðningsmenn Víkinga héldu sig inni á Ölver en einn þeirra gerði þau mistök, ef svo mætti kalla, að fara út til að tala í símann.

„Ég fór út af Ölver til að taka símtal og þá koma þrír Bröndby menn upp að mér og spyrja hvort ég sé með vesen. Ég spyr til baka hvort þeir séu tapsárir og þeir ýta í mig og lemja mig í andlitið“ sagði stuðningsmaður Víkings, sem kaus að koma ekki fram undir nafni.

„Ég labba frá þeim og fer inn á Ölver aftur, segi Víkingunum frá þessu og þeir koma allir út. Þá bakka þeir [stuðningsmenn Bröndby] frá okkur en koma svo aftur, allir með grímu fyrir andlitið og réðust á okkur. Það endaði í blóðugum slag, sem betur fer fór enginn upp á slysó, en þeir eru greinilega tapsárir“ sagði nafnlaus stuðningsmaður Víkings einnig.

Slagsmálin áttu sér stað eftir að stuðningsmenn Víkings höfðu ítrekað reynt að malda í móinn og beðið menn um að róa sig niður.

Víkingarnir voru meira að segja svo góðir að bjóða Bröndby mönnum bjór en þeir afþökkuðu.

Stuðningsmenn Bröndby virtust svo vera að yfirgefa svæðið en sneru aftur með meiri mannskap, fimm til viðbótar og átta talsins settu hettur yfir höfuð og réðust á stuðningsmenn Víkings sem voru að labba burt. 

En líkt og í leiknum fyrr í kvöld áttu Bröndby menn við ofurefli að etja. 

Hluti af slagsmálunum náðist á filmu og má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Stuðningsmenn Bröndby réðust á Víkinga

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×