Upp­gjörið: Fram - Stjarnan 1-1 | Allir ó­sáttir eftir jafn­tefli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Andri Rúnar skoraði eina mark Stjörnumanna.
Andri Rúnar skoraði eina mark Stjörnumanna. Vísir/Ernir

Stjarnan og Fram skildu jöfn, 1-1, er liðin mættust í síðasta leik 17. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta í Úlfarsárdal í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum í deildinni og fara að líkindum bæði ósátt frá borði.

Stjarnan fékk sitt besta færi í leiknum strax á annarri mínútu leiksins þegar Adolf Daði Birgisson slapp í gegn en Viktor Freyr Sigurðsson sá við honum. Það var eins og Stjarnan hefði slysast þar í gegn eða Framarar slysast til að hleypa þeim í gegn.

Eftir það gat Stjarnan hreinlega ekkert. Ekki neitt.

Það var í raun ótrúlegt að staðan hafi verið markalaust í hléi þar sem Framarar voru umtalsvert hættulegri aðilinn og fengu ítrekaðar góðar sóknarstöður og fín færi, sérlega eftir sóknir upp hægri kantinn. Þó var það svo, staðan var 0-0 þegar hálfleiksflautið gall.

Fram fann svo loksins mark. Hornspyrnu þurfti til. Þegar stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik tók Haraldur Einar Ásgrímsson stutta spyrnu á Fred Saraiva sem gaf fyrir, fann höfuð Róberts Haukssonar sem kom boltanum í netið.

Eftir það vöknuðu Stjörnumenn sem voru sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Þeir þurftu einnig fast leikatriði til að finna netmöskvana en markið skoraði Andri Rúnar Bjarnason sem fylgdi eftir skalla Guðmundar Kristjánssonar í slánna í kjölfar langs innkasts Samúels Kára Friðjónssonar inn á teiginn.

Stjarnan var líklegri aðilinn eftir jöfnunarmarkið en Fram fékk einnig mjög fínt færi til að komast yfir þegar þeir sluppu í gegn þrír gegn tveimur en sending Freds klikkaði.

Stjarnan vildi víti þegar Kyle McLagan fór í Örvar Eggertsson innan teigs í uppbótartíma en ekkert var dæmt. Fyrr í leiknum hafði McLagan hent sér í glæralega tæklingu á Andra Rúnar Bjarnason innan teigs en sömuleiðis ekkert dæmt.

Jökull Elísabetarson óð að Arnari Þór Stefánssyni strax og lokaflautið gall vegna ákvörðunar hans að gefa Stjörnunni ekki víti í lokin en því varð ekki breytt. 1-1 jafntefli var niðurstaðan.

Bæði lið fara ósátt frá borði enda hefði Fram átt að nýta yfirburði sína betur á meðan Stjarnan sér fram á að hafa misst af mögulegu sigurmarki úr vítaspyrnu sem aldrei varð.

Liðin eru áfram jöfn að stigum í 4.-5. sæti með 25 stig hvort.

Atvik leiksins

Sama hvort Stjarnan átti að fá víti eða ekki verður það augljóslega stór umræðupunktur þegar menn vilja víti undir lok leiks. Það hefði líklega ráðið úrslitum hefði Arnar dómari bent á punktinn.

Stjörnur og skúrkar

Kennie Chopart var flottur hjá Fram, líkt og hann iðulega er. Simon Tibbling átti fínasta leik og Róbert Hauksson einnig, og hann skoraði markið. Steven Caulker komst ágætlega frá frumraun sinni, Guðmundur Kristjánsson var fínn í hægri bakverði og Andri Rúnar var öflugur í framlínu Garðbæinga.

Allt Stjörnuliðið var agalega slakt í fyrri hálfleik. Örvar Logi Örvarsson átti í sérlega miklum vandræðum í vinstri bakverðinum þar sem Framarar tvöfölduðu og þrefölduðu á hann er þeir sóttu látlaust upp hægri kantinn. Adolf Daði Birgisson sýndi ekki mikið í dag og sama má segja um Alex Þór Hauksson.

Umgjörð og stemning

Fátt um söngva og stemningin almennt heldur róleg á meðal 873 áhorfenda sem lögðu leið sína í Úlfarsárdalinn í dag. Framarar vel mannaðir með Snorra Má Skúlason, Guðmund B. Ólafsson, Svala Björgvins og landsliðsmanninn Hörð Björgvin Magnússon á meðal stuðningsmanna í stúkunni.

Dómarinn

Arnar Þór Stefánsson og hans teymi komst nokkuð vel frá leiknum í kvöld. Leikurinn flaut vel og menn fengu spjöld þegar átti að spjalda.

Spurningin er hvort Stjarnan hafi átt að fá tvö víti. Bæði atvik eru á mörkunum að vera brot. Sértu á því að Stjarnan hafi átt að fá víti er frammistaða þeirra slök en sértu á því að rétt hafi verið að sleppa báðum er frammistaðan góð.

Jökull: Blóðug barátta

Jökull var ekkert sérlega skemmt yfir fyrri hálfleiknum en segir sitt lið hafa verið líklegra til að vinna undir lokin. Hann vildi fá vítaspyrnu í uppbótartíma.Vísir/Diego

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, vildi meina að Stjarnan hafi átt að fá víti undir lok leiks.

„Það held ég. Þið skoðið þetta bara á myndbandi. Við verðum örugglega sammála,“ sagði hann í samtali við Ágúst Orra Arnarson á Sýn Sport eftir leik.

Jökull sammældist því þá að Stjarnan hafi ekki sýnt sínar bestu hliðar framan af leik.

„Við vorum ofboðslega slakir í 45 mínútur í fyrri hálfleik. En eftir að þeir skora sækjum við stíft. Mér fannst við vera að fara að sækja þetta en mér fannst svekkjandi að sækja ekki þrjú stig á miðað við hvernig þetta spilaðist síðustu tuttugu mínúturnar,“ segir Jökull. Margt hafi verið að í fyrri hálfleik.

„Það voru allskonar hlutir bæði varnarlega og sóknarlega. Við fórum yfir það og löguðum. En það var bara margt.“

Hann lítur þá til framhaldsins, Fram og Stjarnan áfram jöfn að stigum, og ekkert annað að gera en að einblína á næsta leik.

„Hörkuleikur á sunnudaginn á móti Víkingum. Við erum ekkert að horfa lengra en það. Í rauninni tekur því ekki að horfa í töfluna strax. Hver leikur er svona. Það er blóðug barátta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira