Handbolti

Ís­lensku strákarnir byrjuðu HM á 22 marka sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var ekki mikil mótstaða frá Gíneubúum á HM í dag.
Það var ekki mikil mótstaða frá Gíneubúum á HM í dag. Youtube

Íslenska nítján ára landslið karla í handbolta byrjaði vel á heimsmeistaramótinu í Kaíró í Egyptalandi því liðið vann stórsigur í fyrsta leik sínum í dag.

Íslensku strákarnir unnu 22 marka sigur á Gíneu, 41-19 en íslenska liðið er einnig í riðli með Sádi-Arabíu og Brasilíu.

Bessi Teitsson (Grótta) var atkvæðamestur í íslenska liðinu með sjö mörk, Elís Þór Aðalsteinsson (ÍBV) skoraði fimm mörk en þeir Garðar Ingi Sindrason (FH), Haukur Guðmundsson (Afturelding) og Dagur Árni Heimisson (KA) skoruðu allir fjögur mörk.

Tólf leikmenn íslenska liðsins skoruðu tvö mörk eða meira í leiknum. Jens Sigurðsson (Valur), markvörður íslenska liðsins, var valinn maður leiksins af IHF.

Gíneubúar jöfnuðu þrisvar á upphafsmínútum leiksins en í stöðunni 3-3 skildu leiðir. Sex íslensk mörk í röð þýddu 9-3 forystu og staðan var síðan orðin 11-4 um miðjan hálfleikinn.

Íslenska liðið var síðan ellefu mörkum yfir í hálfleik, 19-8, þar sem Garðar Ingi Sindrason var markahæstur í liðinu með fjögur mörk úr fjórum skotum. Seinni hálfleikurinn var því bara formsatriði en strákarnir tvöfölduðu þar forystu sína.

Næsti leikur íslenska liðsins á morgun á móti Sádi-Arabíu en liðið spilar svo við Brasilíumenn á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×