Enski boltinn

Shearer með skila­boð til Newcastle: Losið ykkur við Isak

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer fagnaði mörgum mörkum sem leikmaður Newcastle og varð markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann lék með liðinu.
Alan Shearer fagnaði mörgum mörkum sem leikmaður Newcastle og varð markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann lék með liðinu. Getty/Shaun Botterill

Alan Shearer er risastór Newcastle goðsögn en núna er hann orðinn þreyttur á framhaldssögunni með Alexander Isak.

Newcastle segist ekki vilja selja Isak en leikmaðurinn sjálfur vill fara til Liverpool. Newcastle hefur þegar hafnað 110 milljón punda tilboði Liverpool í sænska framherjann.

Shearer sér enga aðra lausn í stöðunni en að Newcastle selji Isak í sumar.

„Enginn einstaklingur er stærri en fótboltafélag. Ef hann vill ekki vera hérna, reyndu bara að fá eins mikið og þú getur og losaðu þig við hann,“ sagði Alan Shearer í hlaðvarpsþættinum The Rest is Football.

„Takk fyrir minningarnar en farðu bara,“ sagði Shearer.

Isak fór ekki með í æfingaferð Newcastle til Suður-Kóreu og æfði í staðinn á Spáni. Hann er nú mættur aftur til Newcastle en knattspyrnustjórinn Eddie Howe varaði hann við að hugarfar hans yrði að vera miklu betra til að hann fengi að æfa með aðalliðinu.

Er Shearer sjálfur fúll út í sænska framherjann?

„Ég er alls ekki reiður út í hann. Ég skil hvernig fótboltinn virkar. Ég geri mér alveg grein fyrir öllu því sem er í gangi í kringum íþróttina. Ég skil líka hans hugarfar. Er ég hrifinn af því? Hef ég skilning fyrir því? Það kallar líklega á tvö mismunandi svör,“ sagði Shearer.

„Ef það er ómögulegt fyrir Eddie Howe að fá hann til breyta um skoðun og hann segir nei, eins og þetta lítur út núna, þá vil ég að hann fari. Þú færð fullt af peningum fyrir hann, hver það er sem er tilbúinn að borga fyrir hann. Nú er bara að finna leikmenn í staðinn, vonandi fyrir tímabilið, og svo bara áfram gakk,“ sagði Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×