Innlent

Þýskir klettaklifrarar slógust í hóp með björgunar­mönnum

Agnar Már Másson skrifar
Frá vettvangi, þegar björgunarmenn síga niður til mannsins til að hífa hann upp.
Frá vettvangi, þegar björgunarmenn síga niður til mannsins til að hífa hann upp. Landsbjörg

Björgunarfélag Hornafjarðar kom ferðamönnum til aðstoðar við Hoffelsslón suður af Vatnajökli í dag, mánudag, þar sem einn hafði lenti í sjálfheldu í brattri fjallshlíð. Þýskir klettaklifrarar slógust í hóp með björgunarmönnum.

Rétt fyrir klukkan fimmtán í dag barst beiðni um aðstoð björgunarsveitar frá ferðamönnun sem voru á ferð í fjalllendi við Hoffelsslón suður af Vatnajökli, segir í tilkynningu frá Landsbjörg. 

Einn ferðamannanna hafi lent í ógöngum í brattri fjallshlíð og var kominn í sjálfheldu.

Björgunarfélag Hornafjarðar var boðað út til aðstoðar og ljóst var að um fjallabjörgunarverkefni væri að ræða. Á leið björgunarmanna á vettvang hafi þeir gengið fram á tvo þýska klettaklifrara sem voru við æfingar á svæðinu, og slógust þeir í hópinn með björgunarmönnum.

Björgunarmaður prílar niður að ferðamanninum.Landsbjörg

Björgunarsveitarmenn settu dróna í loftið til að flýta fyrir að maðurinn fyndist, en staðsetning var nokkuð óviss í byrjun útkallsins, að sögn Landsbjargar. Þegar búið var að staðsetja manninn komu björgunarmenn sér fyrir fyrir ofan hann, settu upp tryggingar og siglínu og sigu niður til hans þar sem hann var búinn að koma sér fyrir.

Ferðamaður kemst í sjálfheldu í klettum við HoffelsslónLandsbjörg

Rétt fyrir klukkan 17 var búið að tryggja ferðamanninn til uppfarar. Maðurinn var hífður upp klettinn úr sjálfheldunni þar sem hann var í ágætis standi og gat gengið með björgunarsveitinni niður þá leið sem hún hafði komið.

Klukkan 18 voru allir komnir niður og aðgerðum lokið, segir í tilkynningunni.

Ferðamaður kemst í sjálfheldu í klettum við Hoffelsslón.Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×