Enski boltinn

Sjáðu tilfinningaþrungna kveðju­stund Son

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Heung-Min Son hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Tottenham.
Heung-Min Son hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Tottenham. EPA/JEON HEON-KYUN

Heung Min-Son hlaut heiðursskiptingu í sínum síðasta leik fyrir Tottenham, æfingaleik gegn Newcastle sem fór fram í heimalandi hans, Suður-Kóreu.

Son var skipt af velli um miðjan seinni hálfleik en hann tilkynnti í gær að þetta yrði hans síðasti leikur fyrir félagið.

Áhorfendur risu úr sætum sínum á leikvanginum í Seoul þegar skiptingin var framkvæmd og hylltu Son, besta fótboltamann í sögu Suður-Kóreu.

Hver einasti leikmaður Tottenham tók utan um hann og meira að segja andstæðingarnir í Newcastle vottuðu virðingu sína.

Klippa: Heiðursskipting Son í síðasta leiknum

Son skilur við Tottenham eftir áratug hjá Lundúnaliðinu, hann er fjórði markahæsti leikmaður í sögu félagsins og kveður á mjög góðum nótum eftir að hafa lyft Evrópudeildartitlinum með Tottenham í vor.

Hann er einn marka- og stoðsendingahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og einn af aðeins sjö leikmönnum sem er á topp tuttugu listanum í báðum flokkum.

Ferlinum er þó ekki lokið hjá framherjanum, næsti áfangastaður er talinn vera Los Angeles FC í Bandaríkjunum.

Æfingaleikur Tottenham og Newcastle endaði með 1-1 jafntefli. Brennan Johnson kom Tottenham yfir en Harvey Barnes jafnaði fyrir Newcastle. Bæði mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik og þau má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Mörkin úr æfingaleik Tottenham og Newcastle



Fleiri fréttir

Sjá meira


×