Fótbolti

Marta mætti og bjargaði Brasilíu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Marta ætlaði að hætta með landsliðinu í fyrra  en heldur áfram að safna titlum.
Marta ætlaði að hætta með landsliðinu í fyrra en heldur áfram að safna titlum. Franklin Jacome/Getty Images

Brasilíska goðsögnin gangandi, Marta, kom inn af varamannabekknum og skoraði tvisvar í úrslitaleik Suður-Ameríku bikarsins. Hún jafnaði leikinn í uppbótartíma og Brasilía stóð svo uppi sem sigurvegari eftir vítaspyrnukeppni gegn Kólumbíu.

Úrslitaleikurinn var hin allra mesta skemmtun. Linda Caicedo tók forystuna snemma fyrir Kólumbíu en hin brasilíska Angelino jafnaði úr vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik.

Kólumbía náði svo 3-2 forystu í seinni hálfleik áður en Marta lét til sín taka. Hún jafnaði leikinn 3-3 í uppbótartímanum og farið var í framlenginu.

Marta skoraði annað mark í framlengingunni og kom Brasilíu yfir en Kólumbía jafnaði 4-4 og haldið var í vítaspyrnukeppni.

Marta reyndist ekki hetjan þar, hún klúðraði sinni spyrnu en liðsfélagar hennar komu til bjargar. Brasilía skoraði úr fimm af sjö spyrnum sínum en Kólumbía aðeins úr fjórum.

Þetta var fimmti Suður-Ameríkubikarinn í röð sem Brasilía vinnur og í fjórða sinn sem Kólumbía verður fyrir barðinu á þeim í úrslitaleiknum. Alls hefur Brasilía unnið í átta af níu skiptum sem keppnin hefur verið haldin.

Marta, sem hótaði því að hætta í fyrra en hélt áfram ótrauð, bætti þar með enn frekar við markamet sitt fyrir landsliðið. Hún hefur nú skorað 122 mörk í 206 landsleikjum, langmarkahæsta landsliðskona Brasilíu frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×