Innlent

Fagna af­mæli virkjunar sem sökkti sveitajörðum en rafvæddi síldarbæ

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stífla Skeiðsfossvirkjunar er þrjátíu metra há. Fyrir innan er dalurinn sem fór á kaf í Stífluvatn.
Stífla Skeiðsfossvirkjunar er þrjátíu metra há. Fyrir innan er dalurinn sem fór á kaf í Stífluvatn. Sigurjón Ólason

Áttatíu ára afmælis Skeiðsfossvirkjunar í Fljótum í Skagafirði verður minnst með samverustund sem hefst við virkjunina klukkan ellefu í fyrramálið, sunnudag. Eigandi virkjunarinnar, Orkusalan, stendur fyrir afmælisfögnuðinum, sem er hluti af hátíðardagskrá Síldarævintýrisins á Siglufirði.

„Skeiðsfossvirkjun, knúin af krafti Fljótaár, var lykilstoð í þeirri stórkostlegu uppbyggingu sem fylgdi síldarævintýrinu á Siglufirði. Hún tryggði rafmagn til verksmiðja, heimila og fyrirtækja og lagði grunn að því samfélagi sem þá byggðist upp,“ segir í tilkynningu Orkusölunnar, sem býður upp á ókeypis rútuferð frá Ráðhústorginu á Siglufirði klukkan 10:30. Skráning í rútuna er í gegnum heimasíðu Orkusölunnar.

Stöðvarhús Skeiðsfossvirkjunar. Hún hóf raforkuframleiðlsu árið 1945.Sigurjón Ólason

Þar segir að afmælisveislan fari fram í fallegu og skógi vöxnu umhverfi við stöðvarhúsið. Veitingar verði í boði á svæðinu frá klukkan ellefu; grillaðar pylsur, drykkir, afmæliskaka og kaffi. Fyrir börnin verði boðið upp á leiktæki; hoppukastala, kubb og pétanque.

Sigtryggur Kristjánsson, stöðvarstjóri Skeiðsfossvirkjunar, mun sýna gestum virkjunina og spjalla um sögu hennar og starfsemi. Sýning verður í stöðvarhúsinu og boðið upp á göngu að stíflunni.

Lónið sem myndaðist ofan stíflunnar sökkti dalnum. Sjö sveitabæir fóru í eyði.Sigurjón Ólason
Kristinn G. Jóhannsson, listmálari á Akureyri, málaði þessa mynd af dalnum eins og hann leit út áður. Þá voru tvö lítil vötn í dalum. Málverkið er í eigu Ómars Ragnarssonar.Kristinn G. Jóhannsson

Rafveita Siglufjarðar hóf að reisa virkjunina á stríðsárunum þegar síldarbærinn var helsta auðsuppspretta þjóðarinnar. Þrjátíu metra há stíflan myndaði Stífluvatn árið 1945. Hún var þá hæsta steinsteypta stífla í Evrópu og lengi hæsta stífla á Íslandi.

Hún kostaði hins vegar einhverjar mestu fórnir sem um getur í virkjanasögu landsins. Túnum og engjum sjö sveitabæja var sökkt og búsetan lagðist af, eins og fjallað er um í þessari frétt:


Tengdar fréttir

Stíflan sem sökkti heilum dal og eyddi sjö bæjum telst afturkræf

Heilum dal var sökkt og sjö sveitabæir fóru í eyði með Skeiðsfossvirkjun sem reist var til að rafvæða Siglufjörð. Stöðvarstjórinn, sem brátt lætur af störfum eftir yfir fjörutíu ára starf við virkjunina, segir að svona yrði örugglega ekki gert í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×