Innlent

Vara við að gangast undir fegrunarmeðferðir hjá óviðurkenndum aðilum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Bótúlín er notað í Botox meðferðum.
Bótúlín er notað í Botox meðferðum. Getty

Embætti landlæknis og sóttvarnarlæknir vara einstaklinga við að gangast undir fegrunarmeðferðir hjá aðilum sem ekki hafa til þess leyfi. Í Bretlandi hafi borist tilkynningar um alvarlegar bótúlíneitranir en hefur embættið upplýsingar um að vörur með slíku efni hafi verið fluttar ólöglegar til landsins.

Bótúlíneitur er oft á tíðum notað við fegrunarmeðferðir en til að mynda er efnið í Botox vörum. Í tilkynningu frá Embætti landlæknis segir að tæplega fjörutíu tilvik bótúlíneitrana hafa verið staðfestar í Bretlandi. Um var að ræða fegrunarmeðferðir þar sem bótúlíneitri var sprautað.

„Helstu eitrunareinkenni voru óskýrt tal og erfiðleikar við kyngingu og/eða öndun. Greint var frá því að 22 einstaklingar hafi verið lagðir inn á sjúkrahús, þar af sjö á gjörgæslu. Þó svo að bótúlíneitranir séu óalgengar geta þær verið lífshættulegar,“ segir í tilkynningu frá embættinu.

Ekki hafa borist neinar upplýsingar um bótúlíneitrun hérlendis en það getur tekið allt að fjórar vikur fyrir einkenni að koma fram. Þó hafi þeim borist upplýsingar um að vörur sem innihalda efnið séu fluttar ólöglega til Íslands og notaðar. 

„Eðli málsins samkvæmt getur embættið ekki sagt til um hvort um sé að ræða sömu vöru hérlendis og í Bretlandi.“

Þeir sem hafa farið í fegrunarmeðferð á undanförnum vikum þar sem bótúlínum-lyfjavara var notuð af einstaklingi sem ekki hefur starfsleyfi er hægt að hringja í 1700 fyrir ráðgjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×