Enski boltinn

Textor á ekkert í Crystal Palace lengur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Woody Johnson keypti John Textor út úr Crystal Palace. 
Woody Johnson keypti John Textor út úr Crystal Palace.  Kevin Sabitus/Getty Images

Woody Johnson hefur formlega gengið frá kaupum á hlut Johns Textor í enska úrvalsdeildarfélaginu Crystal Palace, sem má samt ekki taka þátt í Evrópudeildinni.

Enska úrvalsdeildin samþykkti kaupin óvenju fljótt, vanalega tekur ferlið um tvo mánuði en Woody Johnson hefur verið eigandi NFL liðsins New York Jets í um aldarfjórðung, sem er sagt hafa flýtt fyrir.

Sjá einnig: Eigandi Jets kaupir stóran hlut í Crystal Palace

Salan bindur enda á tíma Johns Textor sem eiganda Crystal Palace en þrátt fyrir það er félagið enn á bannlista UEFA fyrir Evrópudeildina í vetur.

Textor á einnig franska félagið Lyon, sem keppir líka í Evrópudeildinni. Samkvæmt reglum UEFA mega tvö félög undir sama eignarhaldi ekki taka þátt í sömu keppni, nema þeim takist að sanna að félögin lúti ekki sömu stjórn.

Aðdáendur Crystal Palace mótmæla ákvörðun UEFA. Crystal Pix/MB Media/Getty Images

Crystal Palace reyndi ítrekað að sannfæra UEFA um að félagið væri ekki undir sömu stjórn og Lyon, það er að segja, Textor færi ekki með völdin þó hann ætti hlut í félaginu.

Þegar það gekk ekki ákvað Textor að selja hlut sinn í félaginu og nú er salan frágengin en þrátt fyrir það má Crystal Palace ekki taka þátt í Evrópudeildinni, vegna þess að fresturinn til að skila skjölum um eignarhald félagsins fyrir næsta tímabil rann út þann 1. mars.

Crystal Palace hefur mótmælt ákvörðunum og ástæðum UEFA harðlega, sagt regluverkið úrelt og áfrýjað málinu til alþjóða íþróttadómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×