Körfubolti

Slapp snemma úr sjö ára banni og samdi strax við Skaga­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Króatinn Josip Barnjak ætlar að koma körfuboltaferlinum sínum aftur í gang á Akranesi.
Króatinn Josip Barnjak ætlar að koma körfuboltaferlinum sínum aftur í gang á Akranesi. Košarkaški klub DepoLink Škrljevo

Króatíski körfuboltamaðurinn Josip Barnjak mun spila með Skagamönnum í Bónus deild karla í körfubolta á komandi vetri þótt að fyrir stuttu leit út fyrir að hann mætti ekki spila körfubolta fyrr en árið 2031.

Barnjak var í lok ársins 2023 dæmdur í sjö ára bann fyrir að hagræða úrslitum í leikjum en hefur nú verið hreinsaður af ásökunum og mátti því spila körfubolta á ný. Daginn eftir að hann fékk grænt ljóst frá FIBA þá samdi hann við ÍA.

„Hann var hreinsaður af ásökununum í maí. Þjálfarateymið fór út að hitta hann í júní og tók æfingu og fundi með honum. Þar fengum við hans hlið og síðan er hann laus allra mála hjá FIBA, við treystum því,“ sagði Birkir Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍA í samtali við Morgunblaðið.

Birkir segir að leikmaðurinn hafi hafnað fullt af tilboðum frá Króatíu því hann vildi ekki spila þar áfram. „Hann væri held ég aldrei að koma til Íslands ef hann hefði ekki farið í þetta bann,“ sagði Birkir.

ÍA er að leika í úrvalsdeild karla í fyrsta sinn frá 2000 eða í aldarfjórðung. Liðið fór alla leið niður í C-deildina en kemur nú aftur upp af krafti.

Josip Barnjak er 26 ára og 190 sentimetra skotbakvörður. Á síðasta tímabili hans í efstu deild í Ungverjalandi þá var hann með 12,3 stig og 3,8 stoðsendingar í leik og hitti úr 38 prósent þriggja stiga skota sinna. Tímabilið á undan var hann í Króatíu með 15,9 stig og 4,4 stoðsendingar í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×