Sport

Már klessti á bakkann og HM er í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Már Gunnarsson fingurbrotnaði á vinstri hendi en hér sést hann kominn upp úr eftir slysið.
Már Gunnarsson fingurbrotnaði á vinstri hendi en hér sést hann kominn upp úr eftir slysið. Fésbókin/Már Gunnarsson

Sundmaðurinn öflugi Már Gunnarsson var einstaklega óheppinn á sundmóti á dögunum og af þeim sökum gæti hann misst af heimsmeistaramóti fatlaðra í haust.

Már segir frá slysinu í færslu á samfélagsmiðlum.

„Einhverjir hafa nú þegar frétt af óhappinu mínu um daginn en fyrir stuttu var ég að keppa á sundmóti og var þetta liður í undirbúningi fyrir heimsmeistaramótið í haust.,“ segir Már á samfélagsmiðlum.

„Allt gekk frábærlega nema að ég lenti illa á bakkanum í 50 metra skriðsundi og tókst að brjóta fingur vinstri handar,“ segir Már.

„Ég hef verið með álspelku síðan þá, hef lítið getað æft sund og bara spilað á píanóið með hægri hendi,“ segir Már.

„Vegna þessa er óvíst að ég fari á heimsmeistaramótið í Singapúr í haust. Ég vona bara að brotið grói rétt svo þetta valdi mér ekki erfiðleikum í framtíðinni. Það er líka smá fúlt að ég var einungis einu sekúndubroti frá því að slá Íslandsmet í þessu ólukku sundi þegar slysið varð,“ segir Már.

Már keppir í flokki blindra en hann hefur þrisvar sinnum verið kosinn Íþróttamaður ársins hjá fötluðum, síðast 2023.

Hann endaði í sjötta sæti í 100 metra baksundi á síðasta heimsmeistaramóti sem fór fram í Manchester 2023. Árið eftir sló Már Íslandsmetið og varð í sjöunda sæti í 100 metra baksundi á Ólympíumóti fatlaðra í París í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×