Fótbolti

Evrópu­meistararnir kláruðu Bayern tveimur mönnum færri

Siggeir Ævarsson skrifar
Anthony Taylor sýnir William Pacho rauða spjaldið á 82. mínútu. Tíu mínútum síðar fór annað rautt spjald á loft og PSG-liðar kláruðu leikinn níu á vellinum.
Anthony Taylor sýnir William Pacho rauða spjaldið á 82. mínútu. Tíu mínútum síðar fór annað rautt spjald á loft og PSG-liðar kláruðu leikinn níu á vellinum. Vísir/Getty

Evrópumeistarar PSG eru komnir í undanúrslit heimsmeistaramóts félagsliða eftir 2-0 sigur á Bayern Munchen. Fyrsta mark leiksins leit ekki dagsins ljós fyrr en á 78. mínútu en í kjölfarið færðist mikið fjör í leikinn.

Désiré Doué kom PSG í 1-0 eftir undirbúning frá Joao Neves en fjórum mínútum síðar fékk William Pacho beint rautt spjald eftir groddalega tæklingu.

Harry Kane náði svo að koma boltanum í netið á 87. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Skömmu síðar fékk varamaðurinn Lucas Hernández svo að líta rauða spjaldið fyrir frjálslega sveiflu á olnboga. Þetta gerðist á 93. mínútu en uppgefinn uppbótartími var sex mínútur.

Þrátt fyrir að vera tveimur mönnum færri hættu PSG-liðar ekki að sækja. Dembélé átti skot í stöng en kláraði svo næsta færi nokkrum sekúndum síðar og innsiglaði 2-0 sigur PSG.

PSG mætir sigurvegaranum úr viðureign Real Madrid og Dortmund í undanúrslitum en sá leikur hefst klukkan 20:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×