Íslenski boltinn

Varð full­orðinn úti

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óskar byrjar að æfa með Víkingum í dag.
Óskar byrjar að æfa með Víkingum í dag. vísir/sigurjón

Óskar Borgþórsson segist vera spenntur fyrir komandi tímum hjá Víkingi. Hann segist hafa lært að verða fullorðinn úti í Noregi þegar hann var í atvinnumennskunni.

Víkingur keypti Óskar frá norska félaginu Sogndal og skrifaði kantmaðurinn undir samning við liðið til ársins 2028. Óskar hefur leikið með Sogndal frá árinu 2023, en áður lék hann með uppeldisfélagi sínu, Fylki. Hann á að baki níu leiki með U-21 árs landsliði Íslands þar sem hann hefur skorað eitt mark. Óskar verður gjaldgengur með liðinu í Bestu deildinni þegar sumarglugginn opnar þann 17. júlí næstkomandi.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila hérna og spila fyrir stuðningsmenn Víkings, tilfinningin er bara ótrúlega góð,“ segir Óskar í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

„Þeir höfðu bara mikinn áhuga á mér og mér leist ótrúlega vel á þá. Þeir eru efstir eins og staðan er núna og eru bara með hrikalega gott lið og góðan þjálfara og eru efstir í deildinni núna,“ segir Óskar sem stefnir aftur út í atvinnumennskuna.

„Það er alltaf markmiðið. Að koma hingað, verða enn betri leikmaður og fara svo aftur út,“ segir Óskar sem segist hafa lært mikið á því að flytja út.

„Ég lærði bara að sjá um mig sjálfur. Svo lærir maður heilmikið að spila fótbolta með öðru liði og bara að elda mat og ég varð bara almennt þroskaðri. Ég í rauninni varð fullorðinn.“

Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×