Innlent

Seinkun frétta­tímans seinkað

Árni Sæberg skrifar
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Vísir/Vilhelm

Kvöldfréttir Ríkisútvarpsins færast ekki til klukkan 20 þegar EM kvenna í fótbolta lýkur, líkt og tilkynnt hafði verið um. Enn stendur þó til að seinka fréttatímanum. Í kvöld verður síðasti tíufréttatíminn lesinn í sjónvarpi allra landsmanna.

Á morgun hefst EM kvenna í fótbolta og því verður kvöldfréttatíma Rúv seinkað til klukkan 21 á meðan á mótinu stendur, líkt og var gert í fyrra þegar karlarnir kepptu á EM. Nú líkt og þá verða engar tíufréttir en munurinn er sá að að loknu móti hefst lestur tíufrétta ekki á ný. Því verður síðasti tíufréttatíminn í kvöld, líkt og tilkynnt var í apríl síðastliðnum.

Samhliða tilkynningu um brotthvarf tíufréttanna var tilkynnt að kvöldfréttir, sem hafa í fjölda ára verið á dagskrá klukkan 19, yrðu færðar til klukkan 20 frá og með 24. júlí næstkomandi.

Í umfjöllun um seinni fréttir á vef Ríkissjónvarpsins segir að fyrri, og verðandi einu, fréttum verði ekki seinkað að sinni.

Í samtali við Vísi segir Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, að ekki hafi verið hætt við að seinka fréttatímanum. Áformunum hafi aðeins verið seinkað þar sem ekki hefði tekist að klára nauðsynleg verkefni tengd breytingunum fyrir sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×