Fótbolti

Fanndís kölluð inn í lands­liðið eftir fimm ára fjar­veru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir er níunda markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.
Fanndís Friðriksdóttir er níunda markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi. vísir/vilhelm

Valskonan Fanndís Friðriksdóttir hefur verið kölluð inn í hóp íslenska kvennalandsliðsins fyrir leikina gegn Noregi og Frakklandi í Þjóðadeild Evrópu. Fanndís tekur sæti Emilíu Kiær Ásgeirsdóttur í hópnum en hún er meidd.

Fanndís, sem er 35 ára, hefur leikið 109 landsleiki og skorað sautján mörk. Hún hefur ekki leikið landsleik í fimm ár.

Síðast lék Fanndís með landsliðinu í 0-1 sigri á Úkraínu á Pinatar mótinu 10. mars 2020.

Fanndís lék með íslenska landsliðinu á EM 2009, 2013 og 2017 og skoraði eina mark þess á síðastnefnda mótinu.

Ísland mætir Noregi í Þrándheimi á föstudaginn og Frakklandi í fyrsta leiknum á nýju grasi á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.

Fanndís hefur leikið alla sjö leiki Vals í Bestu deildinni í sumar og skorað tvö mörk. Hún hefur alls leikið 262 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 123 mörk. Þá lék Fanndís sem atvinnumaður í Noregi, Frakklandi og Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×