Handbolti

Hannes fær Ís­lands­meistara til Austur­ríkis

Sindri Sverrisson skrifar
Tryggvi Garðar Jónsson kveður Fram sem Íslands- og bikarmeistari og er nú á leið í atvinnumennskuna.
Tryggvi Garðar Jónsson kveður Fram sem Íslands- og bikarmeistari og er nú á leið í atvinnumennskuna. vísir/Anton

Hinn 22 ára gamli Tryggvi Garðar Jónsson, nýkrýndur Íslandsmeistari í handbolta með Fram, flytur til Austurríkis í sumar því hann hefur samið við úrvalsdeildarfélagið ALPLA Hard.

Tryggvi er á heimasíðu Hard kynntur sem 197 cm skytta sem lætur finna fyrir sér á báðum endum vallarins. Hann var áður í sigursælu liði Vals en kom til Fram 2023 og varð á nýafstaðinni leiktíð tvöfaldur meistari með Frömurum.

Núna er komið að fyrsta skrefinu í atvinnumennsku og það verður undir handleiðslu Íslendings því Hannes Jón Jónsson þjálfar ALPLA Hard og fagnar komu Tryggva:

„Tryggvi var að vinna Íslandsmeistaratitilinn og hefur spilað mikilvægt hlutverk í hjarta varnarinnar á þessari leiktíð. Hann fékk góðan handboltagrunn hjá Val og það verður áhugavert að sjá hvernig hann spjarar sig í deildinni hérna. Við erum með tvo unga leikmenn sem vinstri skyttur, í þeim Lukas Fritsch og Tryggva, og mikinn efnivið með þá tvo í miðjublokkinni okkar,“ sagði Hannes á heimasíðu Hard.

„Ég ákvað að fara til Hard því ég held að það sé fullkominn staður til að þróast sem leikmaður. Frá því að ég talaði fyrst við Hannes þá var ég spenntur og vissi að þetta yrði gott skref. Ég lít á þetta sem frábært tækifæri til að taka næsta skref á mínum ferli,“ sagði Tryggvi sem ætlar sér að halda áfram að vera sigursæll með sínu nýja liði.

Hjá ALPLA Hard hittir Tryggvi fyrir fyrrverandi liðsfélaga sinn úr Val, Tuma Stein Rúnarsson, sem kom til félagsins í fyrra.

Hard varð deildarmeistari í apríl og er komið í úrslitaeinvígi gegn Krems um austurríska meistaratitilinn, eftir að hafa slegið út Margareten í einvígi sem endaði í vítakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×