Enski boltinn

Reka 200 manns eftir tapið fyrir Tottenham

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ratcliffe mun hafa sagt upp 450 manns hjá Manchester United fyrir dagslok.
Ratcliffe mun hafa sagt upp 450 manns hjá Manchester United fyrir dagslok. James Gill - Danehouse/Getty Images

Starfsfólk hjá Manchester United kemst að því í dag hvort það haldi starfi sínu hjá félaginu eftir tap liðsins í úrslitaleik Evrópudeildarinnar fyrir Tottenham á miðvikudagskvöld. Félagið verður af miklum fjárhæðum vegna tapsins og ljóst að fjölda fólks verður sagt upp í dag.

Þetta kemur fram í breskum fjölmiðlum. Samkvæmt tölvupóstsamskiptum við starfsfólk fær fjöldi fólks að vita í dag hvort það haldi starfi sínu eða ekki. 200 manns mun missa starfið í dag.

Sama starfsfólki var boðið í grillveislu við lok tímabilsins í gærkvöld. Búist er við því að mikill niðurskurður verði í sjúkradeild félagsins, á meðal sjúkraþjálfara og nuddara. Sama á við um njósnateymi liðsins.

Yfirmenn hjá United eru sagðir hafa frestað ákvörðun um starfslokin á meðan leikmenn liðsins bjuggu sig undir úrslitaleikinn mikilvæga á miðvikudaginn var.

Það hefði munað um mikið fyrir United að vinna á miðvikudag og komast í Meistaradeild Evrópu, með fylgjandi sjónvarpstekjum.

Jim Ratcliffe hefur haft niðurskurðarhnífinn á lofti frá því að hann keypti stóra hluta í félaginu í febrúar 2024. 250 manns var sagt upp síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×