Innlent

Græddu á hjólinu í fyrra og vilja endur­taka leikinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Parísarhjól gæti brátt risið á Miðbakka að nýju.
Parísarhjól gæti brátt risið á Miðbakka að nýju. Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hyggst auglýsa eftir áhugasmömum aðila til að reka parísarhjól á Miðbakka í sumar. Verkefnið skilaði borginni ágóða á síðasta ári. 

Parísarhjól var sett upp á Miðbakka síðastliðið sumar, en þá var um tilraunaverkefni að ræða. Í tilkynningu á vef borgarinnar segir að verkefnið hafi gengið vel, og því ákveðið að endurtaka leikinn og auglýsa eftir aðila til að reka hjólið í ár. 

Einar Þorsteinsson, þáverandi borgarstjóri, fór fyrstu ferð í parísarhjólinu með fréttamanni Stöðvar 2 á síðasta ári: 

Í tilkynningunni segir að ef viðunandi tilboð berist verði gerður samningur við Faxaflóahafnir um afnot af svæði á Miðbakka, með möguleika á eins árs framlengingu. Sá samningur sé háður samþykki borgarráðs.

Félagið Taylor's Tivoli Iceland ehf. sá um rekstur parísarhjólsins í fyrra. Þá var gengið úr skugga um að búnaðurinn stæðist íslenskar aðstæður, þar með talið vindálag og jarðhræringar.

„Áhersla var lögð á góða hljóðvist í kringum parísarhjólið og reyndust áhyggjur af hávaða óþarfar, svo lítið heyrðist í parísarhjólinu að það mældist ekki í mælingum vegna umferðar á Geirsgötu,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að áhugi á rekstri hjólsuns hafi reynst meiri en ráðgert var, og ljóst að um langtímaverkefni gæti verið að ræða væru áhugasamir aðilar til staðar. Taylor's Tivoli Iceland hafi greitt þrjár milljónir króna auk virðisaukaskatts fyrir leigu á líðinni, og verkefnið hafi skilað gróða fyrir borgina. Hver ferð í hjólið kostaði þrjú þúsund krónur. 

Helsti kostnaður Reykjavíkur vegna verkefnisins hafi verið tilfærsla hjólabrettaramps á Klambratún og greiðsla fyrir verkfræðiráðgjöf við mat á öryggisatriðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×