Upp­gjörið: Valur - Fram 27-28 | Fram Ís­lands­meistari í fyrsta sinn í tólf ár

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Magnús Øder, fyrirliði Fram, smellir einum á bikarinn góða.
Magnús Øder, fyrirliði Fram, smellir einum á bikarinn góða.

Fram er Íslandsmeistari í handbolta karla árið 2025. Varð það ljóst eftir sigur liðsins á Val í kvöld þar sem sigurmarkið kom þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir. Lokatölur 27-28 og Framarar sópuðu Val úr keppni 3-0. Fram er því tvöfaldur meistari í fyrsta skipti í sögu félagsins karlamegin.

Fyrstu tíu mínútur leiksins voru eign markvarðanna. Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, var með sex bolta varða og Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, með fjóra bolta. Staðan 3-3 eftir tíu mínútur.

Heimamenn í Val tókst að komast skrefinu á undan eftir þennan kafla og leiddu með einu til tveimur mörkum. Athygli vakti að hinn ungi Gunnar Róbertsson, leikstjórnandi, byrjaði leikinn hjá Val og komst vel frá sínu. Gunnar ekki verið fastamaður hjá Val í vetur.

Vísir/Anton Brink

Á 22. mínútu leiksins tók Óskar Bjarni Óskarsson leikhlé, einu marki yfir, en á þessum kafla þurftu Valsmenn að hafa fullmikið fyrir hverju marki hjá sér vegna hikstandi sóknarleiks.

Í kjölfarið af leikhléinu komu tveir tapaðir boltar hjá Bjarna Selvindi þar sem hann hreinlega kastaði boltanum út af.

Fram nýtti sér það og kom sér í bílstjórasætið fyrir hálfleikinn. Staðan 13-15 í hálfleik og Framarar í góðum málum.

Heimamenn voru þó ekki lengi að jafna leikinn og eftir það fylgdust liðin að í markaskori, en aldrei munaði meira en einu til tveimur mörkum á liðunum.

Ísak Gústafsson var með Valsliðið á herðum sér sóknarlega í síðari hálfleik og hélt í við spræka Framara. Ísak með sex mörk í seinni hálfleik.

Ísak kom liði sínu í vonda stöðu þegar rúm ein mínúta var eftir af leiknum. Hann lét reka sig út af og víti dæmt. Theodór Sigurðsson skoraði úr vítinu og kom Fram í eins marks forystu. Bjarni Selvindi náði þó að jafna leikinn aftur fyrir lokasókn leiksins.

Sú sókn féll í skaut Fram og endaði með því að Þorsteinn Gauti nýtti sér risa gat í vörn Vals og skoraði. Tvær sekúndur eftir, sem reyndist ekki nægur tími fyrir Val til þess að jafna leikinn.

Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Sigurmarkið! Framarar voru komnir í mikil vandræði og var boltinn látinn í hendur Reynis Þórs, besta leikmanns deildarinnar. Valsmenn þjörmuðu hressilega að Reyni Þór sem olli því að Þorsteinn Gauti var aleinn. Reynir Þór kom boltanum á Þorstein Gauta sem skoraði og fagnaði gífurlega beint fyrir framan albláa stúkuna.

Þorsteinn Gauti tryggði Fram sigurinn.Vísir/Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Margar stjörnur í kvöld. Hins vegar var sennilega besti leikmaður vallarins Theodór Sigurðsson, hornamaður Fram. Theodór kom inn á snemma leiks fyrir Ívar Loga sem hafði klúðrað tveimur dauðafærum. Theodór var klár fyrir þennan risa leik. Sex mörk úr jafn mörgum skotum og öryggið upp málað á vítalínunni.

Annars voru þeir Rúnar Kárason og Reynir Þór Stefánsson prímusmótorar í Fram liðinu, eins og þeim er von og vísa.

Þrír af hornsteinum, Agnar Smári, Róbert Aron og Magnús Óli, þess Valsliðs sem hefur unnið hvern titilinn á fætur öðrum undanfarin ár voru langt frá sínu besta í kvöld, því miður.

Dómarar

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson voru flottir í kvöld og höfðu ekki úrslitaáhrif á niðurstöðu þessa leiks. Þeir fóru tvisvar í skjáinn í kvöld og höfðu góð tök á leiknum.

Stemning og umgjörð

Framarar fjölmenntu á Hlíðarenda í kvöld og voru þeir búnir að fylla nánast það svæði sem þeim var úthlutað í stúkunni tíu mínútum fyrir leik. Fjöldi Valsar var einnig á leiknum.

Hávaðinn og stemmningin í húsinu var stórbrotin. Þakið ætlaði svo af húsinu þegar Þorsteinn Gauti skoraði sigurmarkið.

Vísir/Anton Brink

Þorsteinn Gauti: „Núna leyfi maður sér aðeins að njóta“

„Mér fannst við vera með frumkvæðið. Við misstum þetta auðvitað aðeins niður en einhvern veginn er alltaf sú trú hjá okkur að við séum alltaf að fara að vinna. Mér fannst bara allt leiða til þess að við myndum taka þetta í dag,“ sagði Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, eftir leik.

Þorsteinn Gauti segir Fram liðið alltaf hafa haft trú á því á tímabilinu að það gæti klárað alla titla. Liðið sýndi svo sannarlega fram á það.

„Við hugsuðum að deildin væri kannski smá bónus, einhverjir tveir leikir sem við töpum tæpt þar en við hugsuðum strax að það væri eitthvað sem við ætluðum bara að læra af. Svo í bikarnum og á þessu mómenti þá vildum við bara klára þetta sem og við gerðum.“

Þorsteinn Gauti skoraði sigurmark leiksins. Hann var beðinn um að lýsa því augnabliki.

„Ég klikkaði náttúrulega færi þar sem mér fannst ég geta klárað leikinn, en bara geggjað að fá annan séns og geta komið þessu í netið. Ég veit ekki hvað maður hugsar, maður er bara einhvern veginn í flowinu.“

Framarar ætla fagna hressilega í kvöld og býst Þorsteinn Gauti við því að verða seinn til vinnu á morgun.

„Ég reikna með góðu partýi. Yfirmaðurinn minn er einhvers staðar hérna í stúkunni, ég get þá látið hann vita að ég verði seinn í vinnuna á morgun.“

„Núna leyfi maður sér aðeins að njóta og svo bara aftur beint í gymmið,“ sagði Þorsteinn Gauti að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira