Upp­gjörið: Valur - Porrino 25-24 | Valskonur Evrópu­meistarar fyrstar kvennaliða

Valur Páll Eiríksson skrifar
Vel fagnað. Eðlilega.
Vel fagnað. Eðlilega. Vísir/Anton Brink

Valur vann eins marks 25-24 sigur á Porrino frá Spáni í úrslitaleik um Evrópubikartitil kvenna í handbolta. Þær eru Evrópubikarmeistarar fyrst íslenskra kvennaliða.

Valskonur byrjuðu leikinn kröftuglega og komust yfir í upphafi leiks en þær spænsku voru hins vegar sterkari aðilinn fyrsta korter leiksins eða svo. Þær komust 7-4 yfir um miðjan fyrri hálfleikinn.

Lilja Ágústsdóttir fær knús.Vísir/Anton Brink

Þá svaraði Valur hressilega fyrir sig. Valskonur skoruðu sjö mörk í röð til að snúa leiknum algjörlega á haus og leiddu því 11-7. Varnarleikur liðsins algjörlega til fyrirmyndar enda liðu rúmar fimmtán mínútur frá því að Porrino komst 7-4 yfir þangað til liðið skoraði sitt næsta mark í 11-8 seint í hálfleiknum.

Þriggja marka forskot í hálfleik, 12-9, sem hefði getað verið fjögur mörk hefði mark Elísu Elíasdóttur talið í lok hálfleiksins.

Eftir hlé fylgdi Valsliðið þeim kafla eftir. Valur jók forskotið jafnt og þétt og virtust þær spænsku hreinlega engin svör hafa. José Martínez, þjálfari gestanna, tók sitt annað leikhlé í síðari hálfleik þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum og var Valur þá með sjö marka forystu, 23-16.

Það leikhlé gekk betur en það fyrra í hálfleiknum. Gestirnir mættu mjög framarlega á Valsliðið og fór að votta fyrir smá stressi þegar munurinn var minnkaður. Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði það sem reyndist sigurmark leiksins þegar rúm mínúta var eftir er hún kom Val 25-22 yfir.

Maider Munoz skoraði tvö mörk eftir það og fór manni þá að hætta að standa á sama. Munurinn eitt mark þegar um hálf mínúta lifði leiks en Valskonur héldu í boltann og í þann mund sem Þórey Anna Ásgeirsdóttir ætlaði að taka innkast gall lokaflautið og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út.

Valur Evrópubikarmeistari kvenna í handbolta, fyrst íslenskra liða, og skrá sig þar af leiðandi í sögubækurnar.

Atvik leiksins

Lokaflautið. Valskonur gerðu leikinn óþægilega spennandi á lokakaflanum en þvílíkar tilfinningar sem brutust út um alla höll, þar á meðal í blaðamannastúkunni þar sem menn fögnuðu einnig vel.

Stjörnur og skúrkar

Elísa Elíasdóttir var hreint út sagt mögnuð í bæði vörn og sókn. Mætti Ekaterinu Zhukovu, línumanni Porrino, sem þjálfarar Vals kalla ólöglegasta línumann sem þeir hafa séð enda alltaf með rassinn úti og í ólöglegum blokkeringum sem misvel er tekið á.

Hafdís Renötudóttir var mögnuð í dag.Vísir/Anton Brink

Hafdís Renötudóttir var frábær í markinu, varði 15 skot og þessi korterskafli sem hún lokaði markinu í fyrri hálfleik skipti sköpum. Þórey Anna öflug, markahæst Valskvenna, þar sem vítamörk voru hennar mikilvæg.

Við tökum ekki út neina skúrka eftir þessa gleði að Hlíðarenda.

Dómararnir

Ekkert út á Frakkana Titouan Picard og Pierre Vauchez að setja. Alveg nokkrir skrýtnir dómar en þú veist, hverjum er ekki drullusama.

Sögulegt Valslið!Vísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Hvar á maður að byrja? Þegar maður mætti var fólk úti, ýmist við Fjósið með öl í hönd eða krakkar í boltaleikjum sem var búið að setja upp fyrir utan Hlíðarenda. Þegar inn var komið tók mannhafið á móti manni og klukkutíma fyrir leik var pallborð með þeim Óskari Bjarna Óskarssyni, þjálfara karlaliðs Vals, og Degi Snæ Steingrímssyni, aðstoðarþjálfara kvennaliðsins, og rýnt í mótherjann.

Ágúst Jóhannsson skráir sig í sögubækurnar líkt og Valsliðið allt.Vísir/Anton Brink

Emmsjé Gauti tók svo lagið í félagsheimilinu áður en mannskaranum var smalað inn í sal. Þar tók við danssýning og aftur mætti Gauti til að taka lagið áður en leikurinn byrjaði.

Þétt setið, mikið öskrað, kallað, sungið og trallað á meðan leik stóð og heyrðist einnig vel í tugum spænskra stuðningsmanna. Þetta var upplifun fyrir allan peninginn og þú átt að sjá eftir því að hafa ekki látið sjá þig.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira