Fótbolti

Sampdoria fallið í C-deildina í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Sampdoria voru niðurlútir eftir að í ljós kom að liðið var fallið niður C-deildina á Ítalíu.
Leikmenn Sampdoria voru niðurlútir eftir að í ljós kom að liðið var fallið niður C-deildina á Ítalíu. getty/Franco Romano

Hið sögufræga félag Sampdoria má muna sinn fífil fegurri. Í gær féll Sampdoria niður í C-deildina á Ítalíu í fyrsta sinn.

Sampdoria gerði markalaust jafntefli við Juve Stabia í lokaumferð ítölsku B-deildarinnar í gær og því var ljóst að liðið myndi falla.

Sampdoria féll niður í næstefstu deild vorið 2023 og tapaði í umspili um sæti í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Í vetur hefur svo allt gengið á afturfótunum hjá Genoa-liðinu.

Andrea Pirlo stýrði Sampdoria á síðasta tímabili en var rekinn eftir aðeins þrjá leiki á þessu tímabili. Andrea Sottil tók við en hann var sjálfur látinn fara í október síðastliðnum. 

Eftirmaður hans, Leonardo Semplici, var látinn taka pokann sinn í mars og fyrrverandi leikmaður Sampdoria, Alberico Evani, fékk það verkefni að bjarga liðinu frá falli. Hann naut aðstoðar tveggja gamalla Sampdoria-hetja, Attilos Lombardo og Robertos Mancini, en allt kom fyrir ekki og liðið féll.

Sampdoria varð ítalskur meistari í fyrsta og eina sinn tímabilið 1990-91 og komst í úrslit Evrópukeppni meistaraliða tímabilið á eftir en tapaði fyrir Barcelona á Wembley, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×