Íslenski boltinn

Tinda­stóll, FH og HK á­fram í bikarnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
FH flaug inn í 8-liða úrslit.
FH flaug inn í 8-liða úrslit. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Bestu deildarlið Tindastóls og FH eru komin áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta. HK sem leikur í Lengjudeildinni er einnig komið áfram.

Tindastóll sótti Stjörnuna heim í Garðabæ og vann 3-1 sigur í framlengdum leik. Staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik. Katherine Grace Pettet kom Stólunum yfir á 58. mínútu en Snædís María Jörundsdóttir jafnaði í blálokin og því þurfti að framlengja.

Þar reyndust gestirnir sterkari. María Dögg Jóhannesdóttir kom þeim yfir snemma í framlengingunni og Saga Ísey Þorsteinsdóttir gulltryggði sigurinn.

FH lenti ekki í vandræðum i Árbænum þar sem Hafnfirðingar mættu Fylki. Heimaliðið leikur í Lengjudeildinni eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni á síðustu leiktíð. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Maya Lauren Hansen tvívegis á þremur mínútum áður en Ída Marín Hermannsdóttir gerði slíkt hið sama.

Eva Stefánsdóttir minnkaði muninn fyrir heimaliðið en nær komst Fylkir ekki. Lokatölur 1-4 í Árbænum.

Í Kórnum skoruðu Karlotta Björk Andradóttir og Rakel Eva Bjarnadóttir í 2-0 sigri á sameiginlegu liði Grindavíkur og Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×