Sport

Tæp­lega fimm­tugur Manny Pacquiao ætlar að snúa aftur í hringinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manny Pacquiao er með mörg járn í eldinum. Hann freistar þess að komast aftur inn á filippseyska þingið og ætlar að snúa aftur í boxhringinn í sumar.
Manny Pacquiao er með mörg járn í eldinum. Hann freistar þess að komast aftur inn á filippseyska þingið og ætlar að snúa aftur í boxhringinn í sumar. getty/Peerapon Boonyakiat

Fjögur ár eru síðan Manny Pacquiao lagði boxhanskana á hilluna. En nú ætlar hann að snúa aftur í hringinn, 46 ára að aldri.

Pacquiao keppti síðast gegn Yordenis Ugas um WBA titilinn í veltivigt í ágúst 2021 en tapaði. Eftir bardagann greindi hann frá því að hann væri hættur að boxa til að einbeita sér að stjórnmálaferli sínum. Pacquiao mætti þó sparkboxaranum Rukiya Anpo í sýningarbardaga síðasta sumar.

Slúðrað hefur verið um mögulega endurkomu Pacquiaos í hringinn síðasta árið og ESPN greinir nú frá því að hann ætli að taka hanskana af hillunni. Þann 19. júlí mun Pacquiao mæta Mario Barrios í Las Vegas. Þeir keppast þá um WBC veltivigtartitilinn.

Pacquiao mun þó ekki tilkynna formlega um endurkomuna í hringinn fyrr en eftir þingkosningar á Filippseyjum á mánudaginn. Pacquiao sat á filippseyska þinginu á árunum 2016-22 og stefnir á að endurheimta sæti sitt á því.

Barrios keppti síðast gegn Abel Ramos í nóvember. Bardagi þeirra var á sama kvöldi og bardagi Jakes Paul og Mikes Tyson í Texas. Barrios hefur unnið 29 af 32 bardögum sínum, þar af átján með rothöggi.

Pacquiao er með 72 bardaga á ferilskránni. Hann hefur unnið 62 þeirra, þar af 39 með rothöggi, gert tvö jafntefli og tapað átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×