Skoðun

Orku­öflun á eyja­klösum - Vest­manna­eyjar og Orkn­eyjar

Gísli Stefánsson skrifar

Nýlega heimsótti ég Orkneyjar, norður af Skotlandi, til að skoða orkuinnviði og framleiðslu á orku í eyjasamfélagi í Norður-Atlantshafi. Með mér í för voru fulltrúar nokkurra af þeim stórnotendum raforku sem eru með starfsemi í Vestmannaeyjum sem og fulltrúar frá Umhverfis- og orkustofnun og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Líkindin gefa góð fyrirheit

Markmið ferðarinnar var að skoða hvernig orkuframleiðsla, orkugeymsla og stjórnsýsla í orkumálum fer fram á Orkneyjum og í Skotlandi. Orkneyjar eru góður staður til að bera saman við Vestmannaeyjar, sama hvort horft er til landfræðilegrar legu, landslags, veðráttu og núverandi stöðu í orkumálum sem og þeirrar þróunnar sem kann að koma upp í framtíðinni. Á Orkneyjum fer fram talsverð vindorkuframleiðsla sem og að eyjarnar eru miðstöð rannsókna á sviði sjávarfalla- og ölduvirkjanna. Þegar þetta er skrifað geta orkumannvirki á eyjunum framleitt um 130% af orkuþörf samfélagsins.

Við urðum margs vísari

Hópurinn átti marga innihaldsríka fundi í ferðinni, m.a. með yfirvöldum á eyjunum sem horfa þessa daganna til gríðarmikillar uppbyggingar í vindorku sem og með The European Marine Energy Center (EMEC) sem heldur utan um helstu tilraunir er varða virkjun sjávarfallanna. Einnig hitti hópurinn mikilvæga þjónustu- og hagsmunaaðila í uppbyggingu grænna orkuinnviða. Þar má helst nefna Leask Marine sem þjónustar við uppsetningu og viðhald orkuinnviða á sjó sem og hafnaryfirvöld á Orkneyjum sem eru að vinna að metnaðarfullri uppbyggingu hafnarinnviða sem til að styðja við áætlanir um vindorkuver á sjó sem verð nokkur gígavött að stærð.

Gott aðgengi að orku = öflugt samfélag

Ferðin var liður í að finna leiðir til að bæta samkeppnishæfni Vestmannaeyja hvað varðar orkuöryggi og orkuverð. Hugmyndin að ferðinni kviknaði þegar ég sat í starfshóp sem Guðlaugur Þór Þórðarson fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði sem hafði það hlutverk að skoða leiðir til að efla samfélagið í Vestmannaeyjum á málefnasviðum ráðuneytisins.

Lausnir munu finnast

Ýmsar hugmyndir að lausnum kviknuðu í ferðinni sem munu nýtast í samtalinu um leysa þann vanda í orkumálum sem Vestmannaeyjar hafa glímt við undanfarin misseri. Lausnirnar þurfa að snúa að því hvernig við getum náð niður húshitunarkostnaði í Vestmannaeyjum sem eru á köldu svæði sem og hvernig við bætum aðgengi að grænni orku fyrir fiskvinnslur og landeldi á laxi. Þrátt fyrir að hér sé varmadælustöð af bestu gerð ræðst verð á hita af markaðsverði orku og himinháum flutningsgjöldum. Í fiskvinnslunum snýst þetta um að bæta aðgengi að grænni orku til að draga úr olíunotkun. Staðan sem er uppi hér í dag veikir samkeppnishæfni samfélagsins og rýrir verðmætasköpunina. Þess vegna ætlum við að finna lausnirnar.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og 2. varaþingmaður flokksins í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×