Upp­gjörið: ÍA - KA 3-0 | Skaga­menn risu upp og Viktor fann markaskóna

Hjörvar Ólafsson skrifar
494059331_2001162560409101_6673131317175306862_n
vísir/jón gautur

ÍA fór með 3-0 sigru af hólmi þegar liðið tók á móti KA í fimmtu umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Elkem-vellinum á Akranesi í dag.

Jón Gísli Eyland Gíslason kom Skagamönnum yfir strax á annarri mínútu leiksins en hann fylgdi þá eftir skoti Gísla Laxdals Unnarsson sem Steinþór Már Auðunsson varði og þrumaði boltanum upp í þaknetið.

Viktor Jónsson tvöfaldaði síðan forystu Skagaliðsins með marki sínu eftir tæplega 20 mínútna leik. Haukur Andri Haraldsson átti þá góða stungusendingu á Albert Hafsteinsson sem var óeigingjarn þegar hann renndi boltanum á Viktor sem skoraði í autt markið. Viktor var þarna að opna markareikning sinn í deildinni í sumar.

KA-menn voru meira með boltann það sem eftir lifði fyrri hálfleiks án þess þó að ná að skapa sér opin færi. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti það besta en hann komst í góða skotstöðu eftir góðan undirbúning frá Bjarna Aðalsteinssyni en Hallgrímur Mar náði ekki að minnka muninn fyrir gestina.

Gísli Laxdal Unnarsson, sem spilaði í vinstri vængbakvarðarstöðunni í stað Jóhannesar Björns Vall í þessum leik, fékk fínt færi en Steinþór Már Auðunsson varði skot hans vel.

Gestirnir að norðan voru aðgangsharðari í upphafi seinni hálfleiks og Hallgrímur Mar og Ásgeirsson fengu báðir flott færi til þess að koma KA-liðinu inn í leikinn með marki en Árni Marínó Einarsson varði í bæði skiptin vel.

Undir lok leiksins var Bjarni Aðalsteinsson hársbreidd frá því að stýra hornspyrnu Hallgríms Mars í netið með skalla sínum. Viðar Örn Kjartansson, sem kom inná sem varamaður í leiknum, fékk svo dauðafæri í uppbótartíma leiksins en Árni Marínó varði frábærlega.

Allt kom hins vegar fyrir ekki hjá KA-liðinu og Viktor Jónsson rak síðasta naglann í líkkistu KA-mann þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Skagaliðsins eftir sendingu frá Jóni Gísla Eyland.

Niðurstaðan 3-0 sigur Skagmanna sem hafa þar af leiðandi sex stig líkt og KR, Fram, Valur og Stjarnan í fimmta til níunda sæti deildarinnar. KA er aftur á móti ásamt Aftureldingu í 10. – 11. sæti með fjögur stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira