Enski boltinn

Með Man. Utd til Spánar en mega samt ekki spila

Sindri Sverrisson skrifar
Chido Obi er 17 ára framherji sem gæti mögulega fengið fyrsta byrjunarliðsleik sinn hjá Manchester United gegn Brentford á sunnudaginn.
Chido Obi er 17 ára framherji sem gæti mögulega fengið fyrsta byrjunarliðsleik sinn hjá Manchester United gegn Brentford á sunnudaginn. Getty/Ash Donelon

Leikmennirnir ungu Chido Obi og Sekou Kone voru hafðir með í hópi Manchester United sem ferðaðist til Spánar fyrir leikinn við Athletic Bilbao annað kvöld en mega samt ekki spila.

Rúben Amorim, stjóri United, ákvað að taka leikmennina með vegna þess að United mun dvelja áfram á Spáni nóttina eftir leikinn og þeir geta þá tekið þátt í æfingu þar á föstudaginn.

Þar með er allt útlit fyrir að þeir muni spila leikinn við Brentford í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn, leik sem kemur á milli leikjanna mikilvægu við Athletic Bilbao í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.

Obi kom til United frá Arsenal og Kone frá Guidars í Malí fyrr á þessari leiktíð og því gat United ekki sett þá á B-lista yfir leikmenn sem hægt væri að nýta í Evrópudeildinni.

Diallo og De Ligt snúa aftur

Hinn 17 ára Chido hefur komið sex sinnum inn á sem varamaður hjá United í deildinni en Kone, sem er 19 ára, á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið og ljóst er að það breytist ekki á morgun.

Amad Diallo og Matthijs de Ligt eru hins vegar til taks eftir að hafa verið frá keppni vegna meiðsla - Diallo síðan í febrúar og De Ligt í mánuð, vegna ökklameiðsla.

Fyrri leikur Athletic Bilbao og United hefst klukkan 19 annað kvöld og seinni leikurinn er svo á Old Trafford eftir viku. Á sama tíma mætast Tottenham og norska liðið Bodö/Glimt í hinu undanúrslitaeinvíginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×