Enski boltinn

Segir að Alexander-Arnold eigi ekki að byrja fleiri leiki ef hann er á förum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trent Alexander-Arnold fagnar sigurmarki sínu gegn Leicester City.
Trent Alexander-Arnold fagnar sigurmarki sínu gegn Leicester City. getty/Shaun Botterill

Jamie Carragher segir að Trent Alexander-Arnold eigi ekki að vera í byrjunarliði Liverpool ef hann hefur sagt félaginu að hann ætli að fara frá því í sumar.

Samningur Alexander-Arnolds við Liverpool rennur út í sumar. Óvissa ríkir um framtíð enska landsliðsmannsins en hann hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid.

Eftir að hafa verið frá keppni í nokkrar vikur vegna meiðsla kom Alexander-Arnold inn á í leik Liverpool og Leicester City í gær. Hann skoraði sigurmark Rauða hersins á 76. mínútu og fagnaði af innlifun.

Eftir leikinn sagði Carragher að Alexander-Arnold ætti ekki að byrja leiki fyrir Liverpool nema hann tjái félaginu að hann ætli að vera áfram hjá því.

„Ef Trent hefur ekki gefið stjóranum svar fyrir næsta tímabil ætti hann ekki að byrja leiki,“ sagði Carragher. Hann gaf lítið fyrir ummæli Micahs Richards um að Alexander-Arnold ætti skilið að byrja vegna alls sem hann hefði gert fyrir Liverpool.

„Liverpool sem fótboltafélag á ekki að halda kveðjuathöfn fyrir einhvern,“ sagði Carragher.

Að hans mati á Conor Bradley að byrja síðustu leiki Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, ef Alexander-Arnold er á förum. Þá sé hægt að sjá hvort Bradley ráði við það að fylla skarð Alexander-Arnolds.

Liverpool er með þrettán stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og þarf aðeins einn sigur í viðbót til að verða Englandsmeistari. Ef Arsenal vinnur ekki Crystal Palace á miðvikudaginn er einnig ljóst að Liverpool vinnur titilinn.

Næsti leikur Liverpool er gegn Tottenham á Anfield á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×