Körfubolti

„Fráköstin hjá okkur voru hræði­leg“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurði Ingimundarsyni fannst eitt og annað vanta upp á í leik Keflavíkur gegn Njarðvík.
Sigurði Ingimundarsyni fannst eitt og annað vanta upp á í leik Keflavíkur gegn Njarðvík. vísir/diego

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, var ekki sáttur með spilamennsku síns liðs í tapinu fyrir Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Bónus deildar kvenna í dag. Keflvíkingar enduðu á að tapa með fimmtán stigum, 95-80, í frekar jöfnum leik.

„Þetta var jafn leikur en mér fannst við ekki spila nógu vel hérna í dag. Mér fannst þær spila betur en með smá hörku náðum við að komast yfir eins og undir lok 3. leikhluta en skotnýting og skotval hjá okkur var ekki gott í dag og fráköstin hjá okkur voru hræðileg,“ sagði Sigurður við Vísi í leikslok.

Njarðvík tók 21 frákasti meira en Keflavík í leiknum í dag. Sigurður telur sig eiga einhverja ása uppi í erminni til að jafna þennan mun.

„Það er alls konar sem við vinnum í og lögum það fyrir næsta leik. Ég hef engar áhyggjur af því,“ sagði Sigurður.

Aðspurður um hvað hann hefði verið ánægður með hjá sínu liði í dag var fátt um svör.

„Það var margt sem ég var ekki ánægður með en þær spila á fullu og það er ekki hægt að biðja um meira,“ sagði Sigurður.

Annar leikur liðanna fer fram í Blue-höllinni í Keflavík á miðvikudaginn.

„Þetta er alls konar vinna sem þarf að fara í gang hjá báðum liðum fyrir næsta leik. Við ætlum að reyna að koma mun betri og beittari í næsta leik,“ sagði Sigurður að skilnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×