Íslenski boltinn

Um af­hroð Stjörnunnar í Kópa­vogi: „Ég spáði þessu jafn­tefli“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Blikar rúlluðu yfir Stjörnuna.
Blikar rúlluðu yfir Stjörnuna. Vísir/Jón Gautur

„Við vorum allar í samtali síðastliðinn mánudag og fórum yfir deildina. Mér fannst við bjartsýnar fyrir hönd Stjörnunnar,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þáttastýra Bestu markanna, er afhroð Stjörnukvenna gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Breiðabliks var rætt.

„Ég spáði þessu jafntefli,“ sagði Þóra Björg Helgadóttir, annar af sérfræðingum þáttarins. Leiknum lauk hins vegar með 6-1 sigri Breiðabliks sem var síst of stór.

„Ég sagði að Stjarnan myndi koma okkur á óvart með því að bæta spilamennsku sína mikið frá því í fyrra. Við getum ekki sagt það eftir þennan leik. Þetta er fyrsti leikur í móti en þetta minnti óneitanlega á leikinn á Kópavogsvelli í fyrra þegar Breiðablik vinnur 5-1. Hvort þetta sé að verða einhver grýla, ég veit það ekki en mér fannst Stjörnuliðið ekki mæta til leiks, falla alltof langt frá mönnum,“ sagði sérfræðingurinn Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir og hélt áfram.

„Mér finnst allt í lagi að liggja til baka og þétta en þegar þú ert kominn á þinn eigin síðasta þriðjung verður þú að mæta og þær leyfðu Samönthu Smith og Öglu Maríu (Albertsdóttur) að rekja boltann fyrir utan teiginn og svona, það er ekki í boði. Þá er þér bara refsað.“

„Fyrstu tvö mörkin koma því þær stíga ekki upp í Samönthu Smith. Ert 2-0 undir eftir engan tíma og svolítið erfitt að finna taktinn eftir það. Maður veltir fyrir sér, Anna María (Baldursdóttir) er meidd. Eru þær svona brothættar án hennar? Það er áhyggjuefni,“ sagði Þóra Björg í kjölfarið. Umræðu Bestu markanna um leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkini: „Ég spáði þessu jafntefli“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×