Tónlist

Eyddi ung­lings­árunum inni í þvotta­húsi

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Reynir Snær tónlistarmaður og gítarsnillingur frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið fönix.
Reynir Snær tónlistarmaður og gítarsnillingur frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið fönix. Eva Rut

Tónlistarmaðurinn og gítarsnillingurinn Reynir Snær hefur unnið með flestöllum stórstjörnum landsins en hefur undanfarið verið að vinna að sóló verkefni. Hann frumsýnir hér tónlistarmyndband við sitt fyrsta lag sem sækir meðal annars innblástur í hans uppáhalds veitingastað, Fönix.

„Ég kalla verkefnið Creature Of Habit og er stefni á að gefa út EP plötu snemma í maí. Í gærkvöldi gaf ég út mitt fyrsta lag, fönix,“ segir Reynir Snær glaður í bragði.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið við lagið:

Klippa: Creature of Habit - Fönix

Reynir er með stúdíó uppi á Höfða og er því góðkunnugur þeim veitingastöðum sem þar eru í kring.

„Einn af mínum allra uppáhalds veitingastöðum hér í nágrenni við stúdíóið mitt er Fönix. Lagið kom einmitt til mín eftir vel lukkaða ferð á Fönix. Lengi vel var þetta bara um það bil mínúta af góðum fíling sem ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við.“

Óbeisluð sköpunargleði

Í ársbyrjun tók Reynir sér kvöldstund þar sem hann kláraði flest lög komandi plötu.

„Innblásturinn fyrir þessu lagi var í raun og veru bara óbeisluð sköpunargleði og flæði. Ég setti mér þá reglu að ég myndi ekki reyna að þvinga neitt fram heldur leyfa laginu að leiða mig áfram og að ég yrði jafnframt sá eini sem kæmi að gerð tónlistarinnar. 

Ég leyfði mér þó að brjóta síðastnefndu regluna því að laginu kom Lárus Örn Arnarson, við sömdum saman sungna laglínu og texta sem bregður fyrir á völdum stöðum í laginu,“ segir Reynir en Lalli, eins og Lárus Örn er gjarnan kallaður, hefur búið í Los Angeles síðastliðin ár og unnið í tónlistarbransanum þar.

Reynir er sannarlega enginn nýgræðingur í tónlistarsenunni og hefur spilað oftar á viðburðum og tónleikum en hægt er að telja.

„Ég hef komið víða við sem nokkurs konar session spilari og einnig sem pródúser í til dæmis Idolinu. Ég hef spilað með Elínu Hall, GDRN, Úlfur Úlfur, Friðriki Dór, Jóni Jónssyni og Aroni Can svo einhverjir séu nefndir.“

Hann er gríðarlega þakklátur fyrir fjölbreytt samstörf.

„Mér þykir ég mjög heppinn að fá að vinna með og fyrir stóra flóru af hæfileikaríku tónlistarfólki og þykir mér einkum skemmtilegt hvað verkefnin eru rosalega misjöfn og gefa mér tækifæri til að tileinka mér mörg mismunandi stílbrigði á gítarinn og sem pródúser.“

Byrjaði allt á Sauðárkróki

Þessi ástríða kviknaði á unglingsárunum hjá Reyni en hann er uppalinn á Sauðárkróki.

„Allt byrjaði þetta heima á Sauðárkróki þegar ég sótti fyrsta gítartímann þrettán ára að aldri. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég fann fyrir mikilli ástríðu fyrir þessu hljóðfæri og jaðraði það við þráhyggju. 

Ég eyddi kvöldum unglingsáranna oftar en ekki inni í þvottahúsi heima í Kvistahlíð fyrir framan tölvuna, með gítarinn í kjöltunni, að horfa á tónleika video af Eric Clapton, Stevie Ray Vaughan, John Mayer og fleirum slíkum að reyna mitt besta að teika það sem ég heyrði þá spila.

Ég reyndi mitt besta að channel-a þessa orku frá unglingsárum inn á þetta lag og í raun alla plötuna. Grúví gítarspil, sál og heiðarleiki er það sem einkennir þessa músík mína og þá allra helst lagið sem um ræðir, fönix.“

Reynir Snær tónlistarmaður og gítarsnillingur frumsýnir hér tónlistarmyndband við lagið fönix.Eva Rut

Hann langaði að finna laginu sjónræna vegferð og ákvað því að gera tónlistarmyndband.

„Haraldur Ari fer með aðalhlutverkið í myndbandinu en hann hjálpaði einnig mikið við að kjarna hugmyndina af því sem ég vildi gera. 

Hannes Egilsson og Gestur Sveinsson spila líka stór hlutverk í að koma þessari hugmynd á filmu en Hannes sá um kóreografíu og Gestur skaut og klippti myndbandið.“

Hér má hlusta á Reyni á streymisveitunni Spotify. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.