Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það sé súld eða rigning í morgunsárið, en dregur síðan úr vætu og styttir upp á norðaustanverðu landinu. Hiti verður á bilinu sex til fimmtán stig, hlýjast á Austurlandi.
„Það bætir aðeins í vindinn í kvöld og nótt, en þá fara skil norðaustur yfir landið með rigningu víða.
Á morgun er útlit fyrir suðvestan strekking með snjó- eða slydduéljum, en léttskýjuðu á Austurlandi og kólnar nokkuð. Lægir annað kvöld.
Á laugardag er spáð austan 5-13 m/s, en heldur hvassara norðvestantil seinnipartinn. Rigning eða slydda við suðurströndina, annars úrkomulítið en snjókoma á Suðaustur- og Austurlandi um kvöldið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Suðvestan 8-15 m/s og él eða slydduél, en bjart að mestu á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast fyrir austan. Lægir um kvöldið.
Á laugardag: Snýst í austan 5-13, en 10-15 norðvestanlands síðdegis. Snjókoma eða rigning með köflum, en að mestu þurrt norðan heiða. Hiti 0 til 6 stig að deginum. Víða líkur á snjókomu um kvöldið.
Á sunnudag (pálmasunnudagur): Norðaustanátt og snjókoma eða él, en úrkomulítið á Suðvestur- og Vesturlandi. Hiti um eða undir frostmarki, en 0 til 5 stig vestantil yfir daginn.
Á mánudag og þriðjudag: Norðaustanátt og snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en þurrt syðra. Fremur kalt.
Á miðvikudag: Norðaustanátt og dálítil él fyrir norðan og austan, en líkur á rigningu sunnanlands.