„Ég er ótrúlega ánægður með þennan sigur. Mér fannst þetta vera lang besti leikurinn hjá Grindavík í þessu einvígi. Mér fannst við reyndar líka góðar enda var þetta bara hörku leikur. Þær voru að hitta vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ég er bara ótrúlega ánægður að klára þetta,“ sagði léttur Emil strax að leik loknum.
Spurður að því hver helsti munurinn á liðunum væri segir Emil að fráköstin hafi falli meira með liðinu í dag.
„Frákasta baráttan aðallega. Ég held að við höfum allavega unnið hana í dag, það sást allavega ekki að við værum að tapa henni. Það var samt meiri barátta í okkur í dag heldur en í hinum leikjunum sem skilaði þessum sigri fyrir okkur í dag.“
Þegar rúmlega sex sekúndur voru eftir af leiknum héldu Grindvíkingar í sókn og freistuðu þess að jafna leikinn. Daisha Bradford fékk tækifærið til að jafna og knýja framlengingu en skot hennar fór ekki niður og Haukar komnir á blað í þessu einvígi.
„Já, sérstaklega miða við það hvernig leikurinn var búinn að þróast. Mér fannst við vera komnar með þetta þegar við komumst tíu stigum yfir um miðjan fjórða fjórðung. Daisha setur svo þarna tvo þrista á stuttum tíma og við það myndast smá hræðsla í liðinu sem gerir það að verkum að þær fá í raun tækifæri til að klára þetta. Ég veit ekki almennilega hvað maður getur gert annað en að reyna að hvetja þær áfram. Ég tók leikhlé til að reyna að róa þær aðeins því það var komið smá „panic“ í liðið. Það eina sem ég gat reynt var að róa þær og láta þær spila sinn leik.“
Spurður hvort hann reikni með að breyta einhverju fyrir næstu viðureign liðanna segist Emil bara ætla að byrja á því að skoða þennan leik.
„Ég ætla að byrja á því að skoða þennan leik. Það er var margt gott í þessu en svo eru alltaf nokkrir hlutir sem hægt er að laga og bæta.“