Innlent

Hætta við upp­bygginguna vegna „nei­kvæðrar um­ræðu“

Atli Ísleifsson skrifar
Í umsókn Samkaupa og KSK eigna var gert ráð fyrir uppbyggingu á því svæði þar sem nú er tjaldsvæði í miðbænum.
Í umsókn Samkaupa og KSK eigna var gert ráð fyrir uppbyggingu á því svæði þar sem nú er tjaldsvæði í miðbænum. Vísir/Egill

Samkaup og KSK eignir hafa ákveðið að draga umsókn sína um uppbyggingu nýs verslunarkjarna á Siglufirði til baka vegna „neikvæðrar umræðu“ um málið. Áætlanir gerðu ráð fyrir uppbyggingu á því svæði þar sem nú er tjaldsvæði í miðbænum.

Þetta kemur fram í bréfi sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í gær. Þar segir að komi til þess að breytingar verði á almennri afstöðu til verkefnisins þá sé Samkaup og KSK eignir reiðubúin að endurskoða aðkomu sína að því.

Umsóknin sneri að því að kjarninn myndi hýsa nýja verslun Samkaupa, ásamt minni verslunum og/eða þjónustu. Byggingarnar áttu að verða á einni hæð og allt að 1.500 fermetrar að stærð. Aðkoma að lóðinni yrði bæði frá Gránugötu og Snorragötu.

Byggingarnar áttu að verða á einni hæð og allt að 1.500 fermetrar að stærð. Tark

„Gert ráð fyrir bílastæðum vestanmegin við verslunarkjarnann, að Túngötu, sem telja um 50 stæði. Áhersla er lögð á að fyrirhugaðar byggingar staðsetji sig á sannfærandi hátt gagnvart nærumhverfinu, ásamt því markmiði að skapa jafnvægi í útliti bygginga við núverandi byggð,“ sagði í umsókninni.

Ekki hafði verið veitt leyfi fyrir uppbyggingunni innan stjórnkerfisins en málið hafði meðal annars verið til umræðu á íbúafundi í nóvember síðastliðnum.

Tark



Fleiri fréttir

Sjá meira


×