Sport

Málinu vísað frá og SA og SR spila um Ís­lands­meistara­titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Skautafélags Reykjavíkur geta farið að undirbúa sig fyrir úrslitaeinvígið.
Leikmenn Skautafélags Reykjavíkur geta farið að undirbúa sig fyrir úrslitaeinvígið. @srishokki

Skautafélag Reykjavíkur hafði sigur fyrir Áfrýjunardómstóli ÍSÍ og missir því ekki að úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í ár.

Úrslitaeinvígi Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar getur því hafist en eftir að dómurinn féll þá voru Fjölnismenn á leið í úrslitaeinvígið á móti SA.

SR fór fram á það við Dómstól ÍSÍ að ógilda dóminn sem breytti 3-0 sigri liðsins á SA, í Topp-deild karla í íshokkí, í 10-0 tap.

Fjölnismenn kærðu úrslit leiksins á þeim forsendum að SR hefði verið með ólöglegan leikmann á skýrslu og auk þess þrjá markverði skráða þegar aðeins er leyfilegt að hafa tvo. Þó að Fjölnir hafi ekki átt aðild að leiknum skipta úrslitin sköpum fyrir liðið sem miðað við dóm Dómstóls ÍSÍ fer upp fyrir SR í 2. sæti Topp-deildarinnar og því í úrslitakeppni við SA um Íslandsmeistaratitilinn.

Áfrýjunardómstóli ÍSÍ hefur tekið málið fyrir og þar kemur fram að ekki er talið umrædd atvik séu þess eðlis að þau feli í sér að misgert hafi verið við stefnda í skilningi greinar 31.1 í lögum ÍSÍ. Verður því ekki talið að stefndi hafi átt kærurétt í máli þessu og með því fallist á aðalkröfu áfrýjanda að málinu verði vísað frá dómstól ÍSÍ.

Það verða því tvö bestu liðin sem keppa um titilinn í ár eins og upphaflega stóð til. ÍHÍ var búið að fresta úrslitum um viku en það á eftir að koma í ljós hvort úrslitin byrji núna á laugardag á Akureyri eða seinki enn frekar.

Það má lesa meira um málið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×