Innlent

Stöðug og jöfn jarð­skjálfta­virkni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kvikuhlaup hófst á sjöunda tímanum að morgni 1. apríl og skömmu síðar hófst eldgos. Það varði þó stutt og hefur engin virkni sést við gossprunguna í meira en sólarhring.
Kvikuhlaup hófst á sjöunda tímanum að morgni 1. apríl og skömmu síðar hófst eldgos. Það varði þó stutt og hefur engin virkni sést við gossprunguna í meira en sólarhring. Vísir/Anton Brink

Engin virkni hefur sést á gossprungunni sem opnaðist norðan við Grindavík 1. apríl en jarðskjálftavirkni hefur haldist stöðug í nótt. Frá miðnætti hafa mælst um 600 skjálftar og dreifast þeir nokkuð jafnt eftir ganginum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar sem var send út klukkan sex í morgun.

Þar segir að enn mælist um 80-120 skjálftar á hverri klukkustund í kvikuganginum og að þeir dreifist nokkuð jafnt frá Stóra Skógfelli í suðvesturhluta gangsins og norður fyrir Keili á norðausturhluta gangsins. Jafnframt er dýpi skjálftanna áfram stöðugt á um 4-6 km dýpi að jafnaði.

Hér má sjá skjálftavirkni á Reykjanesi síðasta hálfa sólarhring.

Allir skjálftar sem mælst hafa frá miðnætti eru undir tveimur að stærð en í tilkynningunni kemur fram að ekki hefur mælst skjálfti yfir þrír að stærð síðan klukkan 14:20 í gær. Umræddur skjálfti var gikkskjálfti sem reið yfir rétt norðaustan við Eldey.

Gikkskjálftum við Reykjanestá og Eldey hefur farið fækkandi og tæplega þrjátíu skjálftar mælst frá miðnætti.

„Engin virkni hefur sést á gossprungunni sem opnaðist norðan Grindavíkur þann 1. apríl en enn má greina glóð í nýja hrauninu og rýkur upp úr því á mörgum stöðum,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×