Frakkland, Ísrael og Belgía verða í riðli Íslands, ásamt Slóveníu og Póllandi eins og áður var ljóst.

Liðin leika í fjórum sex liða riðlum og var þegar ljóst að Ísland yrði í D-riðli í Katowice í Póllandi eftir samkomulag við heimamenn. Í riðlinum verða einnig Slóvenar með Luka Doncic innanborðs, þar sem þeir voru eina lausa liðið úr næstefsta styrkleikaflokki eftir val á gestgjöfum og samstarfsþjóðum.
Þrjú lið bættust svo í riðilinn í dag. Ísland fékk Frakkland, líklega með „geimveruna“ Victor Wembanyama innanborðs, úr efsta styrkleikaflokki en Ísrael úr 4. flokki og Belgíu úr 5. flokki. Wemby er þó að glíma við blóðtappa í öxl og ku ekki spilar meira með San Antonio Spurs á þessari leiktíð en hefur lengri tíma til að ná sér fyrir EM sem hefst 27. ágúst.
Riðlarnir á EM 2025:
A-riðill (Riga): Serbía, Lettland, Tékkland, Tyrkland, Eistland, Portúgal.
B-riðill (Tampere): Þýskaland, Litháen, Svartfjallaland, Finnland, Bretland, Svíþjóð.
C-riðill (Limassol): Spánn, Grikkland, Ítalía, Georgía, Bosnía, Kýpur.
D-riðill (Katowice): Frakkland, Slóvenía, Pólland, Ísrael, Belgía, ÍSLAND.
Frakkar hafa unnið silfur á síðustu tvennum Ólympíuleikum sem og á EM 2022. Ísrael hefur verið með á EM samfleytt frá árinu 1993 og hafnaði í 17. sæti á síðasta móti. Belgar hafa verið með á síðustu fimm Evrópumótum og höfnuðu í 14. sæti á mótinu 2022.
Leikdagar Íslands í riðlakeppninni eru klárir en þeir eru 28., 30., 31. ágúst, 2.og 4. september. FIBA á eftir að staðfesta það en útlit er fyrir Ísland byrji á leik við Ísrael 28. ágúst.
Fjögur lið komast upp úr hverjum riðli og í 16-liða úrslitin en útsláttarkeppni mótsins fer öll fram í Riga.
Riðlakeppni mótsins fer fram í fjórum borgum: Tampere í Finnlandi, Riga í Lettlandi, Limassol á Kýpur og Katowice í Póllandi.
Íslenskir körfuboltaáhugamenn sem stefna á að fara til Katowice í ágúst ættu að vera á tánum næstu daga því Pólverjar hefja brátt miðasölu og eiga Íslendingar forkaupsrétt að ákveðnum fjölda miða.