Leikurinn var á milli UCC Demons og Energywise Ireland Neptune, í 8-liða úrslitum írsku ofurdeildarinnar, og endaði 100-93 fyrir Demons. Þau úrslit hafa nú verið úrskurðuð ógild.
Í fyrsta leikhluta var tveggja stiga karfa sem Tamyrik Fields, leikmaður Neptune, skoraði skráð sem karfa frá Scott Hannigan, leikmanni Demons.
Dómarar leiksins skoðuðu málið betur í hálfleik og sáu að bæta þyrfti tveimur stigum við hjá Neptune vegna körfu Fields.
Hins vegar láðist þeim að taka tvö stig af Demons í staðinn og því var staðan ekki heldur rétt í seinni hálfleiknum.
Samkvæmt tilkynningu frá írska körfuknattleikssambandinu var einfaldlega um mannleg mistök að ræða. Til að gæta heilinda íþróttarinnar og deildarinnar hefur nú verið ákveðið að liðin spili nýjan leik um helgina.
Sigurliðið fer í undanúrslit og keppir þar við Garvey‘s Tralee Warriors.