Enski boltinn

Fær að snúa aftur um helgina með sér­staka grímu

Sindri Sverrisson skrifar
Jean-Philippe Mateta þarf að passa vinstra eyrað nú þegar hann snýr aftur í fótbolta innan við mánuði eftir skelfilegt brot markvarðar Millwall.
Jean-Philippe Mateta þarf að passa vinstra eyrað nú þegar hann snýr aftur í fótbolta innan við mánuði eftir skelfilegt brot markvarðar Millwall. Skjáskot/Sky Sports

Crystal Palace hefur fengið frábærar fréttir því framherjinn Jean-Philippe Mateta verður með í bikarleiknum við Fulham á laugardag, þrátt fyrir fólskulega sparkið sem hann fékk í andlitið í leik við Millwall 1. mars.

Mateta þarf hins vegar að spila með sérstaka grímu eða hlíf til þess að verja eyrað sitt og hefur nú fengið leyfi til þess, samkvæmt frétt Sky Sports. „Tíminn er kominn,“ skrifar Mateta með dramatísku myndbandi á Instagram.

Sauma þurfti 25 spor í vinstra eyra Mateta eftir að Liam Roberts, markvörður Millwall, braut á honum í 16-liða úrslitum enska bikarsins í fótbolta. Atvikið má sjá hér að neðan en Roberts var með takkana hátt á lofti og sparkaði í höfuð Mateta, og var rekinn af velli í kjölfarið.

Mateta hefur komið Roberts til varnar og sagt að svona lagað geti einfaldlega gerst í fótbolta.

„Ég held að hann hafi ekki vaknað og hugsað: Ég vil taka hausinn af JP. Það er mikil pressa. Hann vildi gera vel en of miklar tilfinningar geta látið þig gera klikkaða hluti. Þetta voru bara mistök. Þú lærir af þessu,“ sagði Mateta í viðtali í síðustu viku.

Palace og Fulham berjast um sæti í undanúrslitum enska bikarsins og endurkoma Mateta ætti að efla Palace sem hefur verið á góðri siglingu undanfarið. Mateta hefur skorað tólf mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur og þrjú mörk í deildabikarnum en á reyndar eftir að skora í bikarkeppninni, á þeim 105 mínútum sem hann hefur náð þar hingað til.

Roberts fékk sex leikja bann fyrir brot sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×