Leikurinn fór hægt af stað en Thea Imani skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Val eftir þrjár mínútur. Eftir það átti heimaliðið tvo góða kafla, en Valur aðeins einn og staðan í hálfleik 14-8 Iuventa í vil.
Sex mörkum undir í hálfleik var útlitið svart fyrir Val en liðið saxaði virkilega vel á forskotið strax í upphafi seinni hálfleiks og var búið að minnka muninn í tvö mörk eftir aðeins átta mínútur.
Eftir það hélt heimaliðið hins vegar tveggja marka forystunni það sem eftir lifði leiks, eða svo gott sem. Valskonur náðu að jafna á einum tímapunkti en voru alltaf eftir á.
Eftir slakan fyrri hálfleik verður það þó að teljast ágætt að taka aðeins með sér tveggja marka tap heim í seinni leikinn.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með sjö mörk, Lovísa Thompson fylgdi henni eftir með sex mörk.
Seinni leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda næsta sunnudag klukkan hálf sex.