Innlent

Um 400 manns tóku þátt í vetrar­há­tíð Ferða­klúbbsins 4x4

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hluti hópsins, sem stóð fyrir viðburðinum og stóð vaktina í tjaldinu. Þorbjörg er í rauðu peysunni.
Hluti hópsins, sem stóð fyrir viðburðinum og stóð vaktina í tjaldinu. Þorbjörg er í rauðu peysunni. Aðsend

Vetrarhátíð Ferðaklúbbsins 4x4 var haldin laugardaginn 15. mars síðastliðinn í brakandi blíðu og logni við Þursaborg á Langjökli. Um 400 manns skráðu sig í ferðina, flestir frá höfuðborgarsvæðinu en stórir hópar frá Norður- og Suðurlandi og víðar að líka.

„Dagurinn byrjaði á heimboði til Arctic Trucks á Kletthálsi í Reykjavík þar sem ferðalöngum var boðið upp á vöfflur og kaffi áður en haldið var af stað,“ segir Þorbjörg Yngvadóttir, ein af skipuleggjendum ferðarinnar.

Dagurinn byrjaði á heimboði til Arctic Trucks á Kletthálsi í Reykjavík, þar sem ferðalöngum var boðið upp á vöfflur og kaffi.Aðsend

„Arctic Trucks var styrktaraðili ferðarinnar og buðu einnig upp á pylsurnar, sem félagsmenn grilluðu við Þursaborg. Grillaðar voru 600 pylsur ásamt meðlæti, og bílarnir sem fluttu matinn drifu talsvert betur eftir grillið,“ segir Þorbjörg.

Margar leiðir eru upp á Langjökul og voru bílar að koma upp að sunnan fram hjá Tjaldafelli, að Vestan frá Húsafelli, að Austan upp Skálpanes eða að norðan. Svo hittist allur hópurinn við Þursaborg, sem er tignarlegur klettatindur á miðjum jöklinum.

Um 400 manns tóku þátt í vetrarhátíðinni í stórkostlegu veðri.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þrátt fyrir þungt færi komust allt að 200 bílar á leiðarenda, og enn fleiri reyndu við jökulinn. Sólin skein og logn var á jöklinum svo fólk naut þess að spjalla og fylgjast með fjölbreyttum bílaflotanum, sem streymdi að. Að vel heppnuðu hátíðinni lokinni fór fólk ýmist heim eða hópaðist saman í gistingu í skálum til að halda jeppaferðinni áfram,“ bætir Þorbjörg við.

Yfirlit af leiðum sem farnar voru um jökulinn.Aðsend

Heimasíða Ferðaklúbbsins 4 x 4




Fleiri fréttir

Sjá meira


×