Innlent

Eig­endum gert að fjar­lægja skilti við Hval­fjarðar­göng

Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Frá aldamótum hefur verið skilti á þessum stað við Hvalfjarðargöngin. Frá 2023 hefur skiltið verið með led-skjám. Nú hefur eigendum verið gert að taka það niður.
Frá aldamótum hefur verið skilti á þessum stað við Hvalfjarðargöngin. Frá 2023 hefur skiltið verið með led-skjám. Nú hefur eigendum verið gert að taka það niður. Vísir/Sigurjón

Eigendum auglýsingaskiltis, sem hefur staðið í aldarfjórðung við norðurenda Hvalfjarðarganga, hefur verið gert að fjarlægja það. Skiltið hefur verið þrætuepli í Hvalfjarðarsveit um árabil.

Við Hvalfjarðargöngin hefur staðið skilti í að verða 25 ár en nýverið var því breytt í ljósaskilti án tilskildra leyfa og hefur sveitarfélagið krafist þess að það verði fjarlægt.

Árið 2000 var fyrst gefið vilyrði fyrir uppsetningu á skilti við göngin en skilyrði fyrir því voru hins vegar aldrei uppfyllt og leyfið aldrei gefið út. Þrátt fyrir það var skiltið reist og stendur enn. Svo vildu eigendur skipta því út fyrir led-ljósaskilti.

„Það var síðan árið 2022 komu í tvígang beiðnir til sveitarfélagsins um að gefa leyfi fyrir skiltinu, því var í tvígang hafnað hjá sveitarfélaginu á grundvelli reglna sem gilda um skilti hjá Hvalfjarðarsveit,“ sagði Jökull Helgason, deildarstjóri Umhverfis- og skipulagsdeildar í Hvalfjarðarsveit, í samtali við fréttastofu.

Árið eftir reis engu að síður nýtt ljósaskilti. Byggingafulltrúi krafðist þess að slökkt yrði á skiltinu og það fjarlægt og lagði einnig á dagsektir. Eigendur kærðu þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem staðfesti í megindráttum niðurstöðu byggingafulltrúa.

Jökull Helgason hefur gert eigendunum að taka skiltið niður.Vísir/Sigurjón

„Það liggur þá fyrir að framfylgja þeim kröfum sem byggingafulltrúi hefur gert og úrskurðarnefndin hefur staðfest, sem eru þá að slökkva á skiltinu sem svona fyrsta skref og svo í framhaldinu að hvetja forráðamenn skiltisins til þess að fjarlægja það. Svo eru það þessar dagssektir, 150 þúsund krónur á dag, sem koma til með að leggjast á verkið ef ekki verður farið að þessum tilmælum,“ sagði Jökull.

Eigendur skiltisins vildu ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×