Um fimmtíu konur mættu á viðburðinn, sem var á vegum Lyfju, og var dagskráin fjölbreytt og fræðandi.
Meðal gesta voru matarbloggararnir og áhrifavaldarnir Jana Steingrímsdóttir og Linda Benendiktsdóttir.
Hanna Lilja Oddgeirsdóttir, læknir og stofnandi Gynamedica, hélt erindi um tíðahringstakt kvenna. Freydís Guðný Hjálmarsdóttir, næringarfræðingur, fjallaði um mikilvæga þætti næringar sem konur þurfa að huga að, bæði almennt og í tengslum við hormónabreytingar. Dagný Gísladóttir frá Rvk Ritual leiddi konurnar í gegnum mjúkt jógaflæði og gong-slökun.
Í lok kvölds flutti tónlistarkonan Guðrún Eyfjörð, GDRN, ljúfa og nærandi tóna og skapaði þannig afslappaða stemningu fyrir svefninn.
„Allar höfum við upplifað að vera misupplagðar fyrir æfingar og hreyfingu. Hjá konum er þetta oft fyrirsjáanlegra en hjá körlum, þar sem mánaðarlegar hormónasveiflur tengdar tíðahringnum geta haft umtalsverð áhrif á brennslu, afkastagetu, styrk og endurheimt. Með því að þekkja tíðahringstaktinn og vera meðvitaðar um mismunandi fasa hans er hægt að aðlaga næringu, hreyfingu, hvíld og endurheimt eftir því, hámarka árangur og komast nær markmiðum sínum,“ segir Hanna Lilja Oddgeirsdóttir, læknir sem sérhæfir sig í kvenheilsu.
Eygló Gísladóttir ljósmyndari mætti á viðburðinn og fangaði stemninguna.




















