Innlent

Heil­brigðis­ráð­herra kom sjúk­lingi til bjargar í flugi

Árni Sæberg skrifar
Alma Möller heilbrigðisráðherra er ekki einungis fyrrverandi landlæknir heldur einnig reynslumikill svæfingar- og gjörgæslulæknir.
Alma Möller heilbrigðisráðherra er ekki einungis fyrrverandi landlæknir heldur einnig reynslumikill svæfingar- og gjörgæslulæknir. Vísir/Vilhelm

Alma Möller heilbrigðisráðherra þurfti að rifja upp ekki svo gamla takta þegar maður veiktist um borð í flugvél á leið til landsins. Alma kom sjúklingnum til aðstoðar, ásamt öðrum lækni og hjúkrunarfræðingi, og honum var komið á sjúkrahús eftir lendingu.

Frá þessu sagði Alma að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun, þótt henni þætti það ekki endilega í frásögur færandi að læknir kæmi manni til aðstoðar í flugvél. Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður ræddi við hana.

„Ég var að koma til landsins í gærkvöldi og það var kallað eftir lækni og ég er, jú, menntaður læknir. Þannig að sjálfsögðu gaf ég mig fram og og sinnti þeim einstaklingi sem þurfti að sinna.“

Alls ekki í fyrsta skiptið

Alma vill, eðli málsins samkvæmt, lítið gefa upp um ástand sjúklingsins og ekki staðfesta hvort hann hafi verið í lífshættu. Hins vegar segir hún að málinu hafi lokið þannig að sjúklingnum var komið á sjúkrahús, enda séu það opinberar upplýsingar.

Alma segist oft hafa gefið sig fram þegar kallað hefur verið eftir aðstoð læknis í flugi. Læknar ferðist almennt mikið og í þetta skiptið hafi þau verið tveir læknar um borð og einn hjúkrunarfræðingur. 

„Þannig að við vorum mjög vel mönnuð,“ segir Alma. 

Alltaf nóg að gera hjá Ölmu

Þannig að það er nóg að gera hjá Ölmu Möller þessa dagana?

„Já, það er alltaf nóg að gera. Auðvitað er ég fyrst og síðast svæfinga- og gjörgæslulæknir og ég ætla, allavega í huganum, að halda mér við í því starfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×