Fótbolti

Atalanta mis­tókst að hirða topp­sætið af Inter

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lautaro Martinez innsiglaði sigur Inter.
Lautaro Martinez innsiglaði sigur Inter. Mattia Ozbot - Inter/Inter via Getty Images

Inter trónir enn á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2-0 útisigur gegn Atalanta í toppslag helgarinnar.

Fyrir leik kvöldsins sat Inter á toppi ítölsku deildarinnar með 61 stig, þremur stigum meira en Atalanta sem sat í þriðja sæti. Atalanta hefði því getað tyllt sér á toppinn með sigri.

Það voru hins vegar gestirnir í Inter sem reyndust sterkari og Carlos Augusto kom liðinu yfir á 54. mínútu.

Heimamenn komu sér svo í frekari vandræði þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Brasilíski miðjumaðurinn Ederson átti þá eitthvað vantalað við dómara leiksins og lét gamminn geysa. Fyrir vikið fékk hann að líta gula spjaldið. Ederson lét það þó ekki stoppa sig og hélt áfram þar til að dómarinn sýndi honum gula spjaldið í annað skipti og þar með rautt.

Gestirnir nýttu sér liðsmuninn og Lautaro Martinez tryggði liðinu 2-0 sigur með marki á 87. mínútu áður en Gian Piero Gasperini, þjálfari Atalanta, nældi sér sjálfur í rautt spjald.

Gestirnir nældu sér einnig í rautt spjald í leiknum því Alessandro Bastoni fékk að líta sitt annað gula spjald á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan því að lokum 2-0 sigur Inter sem trónir enn á toppi ítölsku deildarinnar, nú með 64 stig eftir 29 leiki, sex stigum meira en Atalanta sem situr í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×