„Það var til sá heimur að þetta hefði getað verið barátta um toppsætið en vegna úrslita í síðustu umferð þá er það ekki þannig. Þetta er engu að síður rosalega mikilvægur leikur fyrir bæði lið,“ segir Pavel en upphitunina má sjá hér að neðan.
„Stólarnir eru enn í baráttunni um deildarmeistaratitilinn við Stjörnuna. Eins og við höfum margoft komið inn á þá skiptir þessi titill meira máli fyrir Stólana en önnur lið upp á að vera með þennan heimavallarrétt. Hann gildir meira í Skagafirði en á öðrum stöðum,“ segir Helgi og heldur áfram:
„Njarðvíkingar eru svo búnir að eiga frábært tímabil, sérstaklega miðað við væntingarnar sem við höfðum, en töpuðu í síðasta leik fyrir Grindavík. Þeir eiga Stólana og Stjörnuna eftir og það er til sá heimur að þeir fari í úrslitakeppnina með þrjú töp á bakinu, allt gegn liðum sem eru meistaraefni. Það væri skelfilegt að glutra niður þessu góða tímabili, þessari uppbyggingu og momentum sem hefur átt sér stað, og fara með þrjú töp inn í úrslitakeppnina.“
„Ég held að þetta verði algjör forsmekkur að úrslitakeppninni. Þessi leikur skiptir máli en liðin vita líka að leiðin að Íslandsmeistaratitlinum liggur að einhverju leyti í gegnum þessi tvö lið og þú vilt leggja línurnar núna,“ segir Helgi.
Upphitun Pavels og Helga má sjá í heild hér að ofan. Leikur Njarðvíkur og Tindastóls hefst klukkan 19:15 og er á Stöð 2 BD en allir leikir kvöldsins eru jafnframt á Skiptiborðinu á Stöð 2 Sport.