Innlent

Bæjar­full­trúum í Suður­nesja­bæ fækkað um tvo

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá höfninni í Sandgerði, öðrum þéttbýlisstaðanna tveggja í Suðurnesjabæ.
Frá höfninni í Sandgerði, öðrum þéttbýlisstaðanna tveggja í Suðurnesjabæ. Vísir/Vilhelm

Meirihluti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar samþykkti að fækka bæjarfulltrúum um tvo á næsta kjörtímabili. Þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði gegn breytingunni.

Tillagan um að fækka bæjarfulltrúum úr níu í sjö var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar á miðvikudag í síðustu viku. Hún var lögð til og samþykkt af fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar og Bæjarlistans.

Tveir bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins og Magnús Sigfús Magnússon, óháður bæjarfulltrúi sem sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn á kjörtímabilinu, greiddu atkvæði gegn breytingunni. Hún tekur gildi við sveitarstjórnarkosningarnar sem fara fram vorið 2026.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins mynduðu meirihluta eftir kosningarnar 2022. Upp úr því samstarfi slitnaði í fyrra vegna ágreinings um hvort að nýr gervigrasvöllur ætti að vera staðsettur í Garði eða Sandgerði.

Magnús gekk út úr meirihlutasamstarfinu og vísaði til trúnaðarbrests innan raða Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×