Að vera eða ekki vera skjölunarskylt félag, þarna er efinn. Það ætti hið minnsta að vera spurningin sem forsvarsmenn félaga, sem eiga í hvers konar viðskiptum yfir landamæri við tengda aðila, ættu að spyrja sig að í kjölfar nýlegs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Íslenska Kalkþörungafélagsins gegn íslenska ríkinu.
Forsagan er sú að árið 2014 innleiddi Ísland reglur um milliverðlagningu byggðar á svokölluðum leiðbeiningarreglum OECD um sama efni. Með þeim voru innleiddar ákveðnar sameiginlegar grunnreglur í öllum ríkjum OECD um viðskipti tengdra aðila yfir landamæri. Viðskipti eins félags hér á landi við annað félag innan sömu samstæðu í öðru landi geta haft töluverð áhrif á skattstofna sem koma til skattlagningar í hvoru landi fyrir sig. Hefur þetta oft verið nefnt „hækkun í hafi“ í almennri umræðu hér á landi, og er markmið reglnanna að koma í veg fyrir að vörur eða þjónusta séu seld milli tengdra aðila á undir- eða yfirverði til þess að komast hjá réttmætri skattlagningu.
Samræmi er inntak OECD leiðbeininganna
Til þess að forðast að skattyfirvöld tveggja ríkja horfi á hlutina með sitthvorum augum, og ákveði að skattleggja sömu tekjur í báðum löndum, þ.e. svokölluð tvískattlagning, var mikilvægt að regluverkið innan OECD væri samræmt. Markmið umræddra leiðbeiningarreglna er því að virka sem leiðarvísir fyrir skattaðila og skattyfirvöld um hvernig skuli nálgast mat á svokölluðu „armslengdarverði“ og þannig forðast hættu á tvískattlagningu. Að mati þess sem hér heldur á penna er jákvætt að Ísland hafi innleitt reglurnar, þótt sjá megi merki þess að innleiðingin hér á landi hafi ekki farið varhluta af hinni svokölluðu „gullhúðun“, sem er þó efni í annan pistil.
Í héraðsdómi segir að félög beri alfarið sönnunarbyrðina á því að viðskiptin hafi verið á armslengdargrundvelli. Ef sú sönnun telst ekki fram komin, að mati skattyfirvalda, hafi þau víðtækt svigrúm til þess að endurákvarða verðlagningu í viðskiptunum.
Hluti af innleiðingu reglnanna sneri að upptöku svokallaðrar skjölunarskyldu, þ.e. að þeir aðilar sem ná ákveðnum veltu- eða eignamörkum þurfi að útbúa á hverju ári skjölunarskýrslur sem innihalda m.a. upplýsingar um samstæðuna, félögin innan hennar sem eiga í viðskiptum yfir landamæri, greiningar á hlutverkum þeirra í viðskiptunum, ásamt greiningum á því hvernig tryggt sé að viðskiptin eigi sér stað á armslengdargrundvelli.
Sönnunarbyrðin á skattaðilum
Áðurnefndur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í umræddu máli féll í febrúar síðastliðnum. Sneri málið í grundvallaratriðum að því að fyrirtækið lenti í skattskoðun sem tók m.a. til tekjuársins 2015 og varðaði viðskipti þess við erlent móðurfélag sitt. Óskuðu skattyfirvöld eftir því að félagið afhenti skjölunarskýrslu vegna ársins 2018 og skilaði félagið skýrslu sem var talin ófullnægjandi í veigamiklum atriðum. Vekur það athygli undirritaðs að umrædd skýrsla fyrir árið 2018 sé grundvöllur þess að viðskipti félagsins árið 2015 séu endurákvörðuð, mætti jafnvel tala um að í þessu felist „nýsköpun“ í skattframkvæmd og beitingu OECD reglnanna, en áhugavert verður að fylgjast með því hvernig skattframkvæmd þróast í kjölfar dómsins.
Í héraðsdómi segir að félög beri alfarið sönnunarbyrðina á því að viðskiptin hafi verið á armslengdargrundvelli. Ef sú sönnun telst ekki fram komin, að mati skattyfirvalda, hafi þau víðtækt svigrúm til þess að endurákvarða verðlagningu í viðskiptunum. Í flestum öðrum ríkjum OECD þurfa skattyfirvöld almennt að byggja sínar endurákvarðanir á eigin greiningum eða öðrum viðmiðum, sambærilegum þeim sem skattaðilar eiga að framkvæma og tryggja þannig að endurákvarðanir eigi sér stað á armslengdargrundvelli. Þeirri skyldu er ekki fyrir að fara hér á landi ef mið er tekið af dómi héraðsdóms.
Ef mið er tekið af dómi héraðsdóms er ljóst að skattaðilar geta vart treyst á umræddan 45 daga frest til þess að klára sínar skjölunarskýrslur, m.ö.o. eru þeir skyldugir til þess að leggja þær fram, þótt ekki sé formlega óskað eftir þeim, ef boðunarbréf berst frá Skattinum.
Geta mál þessi varðað töluverðar fjárhæðir. Dómur héraðsdóms, sem staðfesti niðurstöðu skattyfirvalda, leiðir til þess að félag sem samkvæmt ársreikningi fyrir rekstrarárið 2015 var með tæpar 870 milljónir í tekjur og svipað í gjöld, sat uppi með hækkun tekjuskattstofns það ár upp á 487.525.000 kr. Tekjur félagsins voru þannig hækkaðar um rúmlega helming, sem leiðir til u.þ.b. 35% EBIT framlegðar af nær áhættulausum viðskiptum. Geri aðrir betur.
Skjölunarskýrslur og tímafrestir
Í 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir að félög skuli hafa 45 daga til að skila skjölunarskýrslum eftir að skattyfirvöld óska eftir þeim. Virðist löggjafinn þannig hafa ákveðið að sérregla gildi um skil þessara skýrslna, umfram önnur gögn sem skattyfirvöld óska eftir. Samkvæmt dómnum hvílir hins vegar skyldan til að skila skjölun hjá skattaðila, jafnvel í þeim tilvikum þar sem skattyfirvöld hafa ekki kallað eftir skjölun fyrir viðkomandi ár. Í dómnum segir að það þurfi að horfa til þess að þegar stjórnvald hafi rannsakað mál málsaðila og gert honum viðvart um ætlun sína um að endurákvarða skattstofn félagsins, þá stofnist hjá honum skylda til að mótmæla og leggja fram gögn um það sem sé rangt í skilningi stjórnvaldsins.
Félög hafa lögbundinn 15 daga frest frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaða breytingu á skattstofnum til þess að andmæla Skattinum sbr. 4. mgr. 96. gr. laga um tekjuskatt, en eiga skv. 5. mgr. 57. gr. sömu laga að hafa 45 daga til þess að láta skjölunarskýrslur af hendi. Ef mið er tekið af dómi héraðsdóms er ljóst að skattaðilar geta vart treyst á umræddan 45 daga frest til þess að klára sínar skjölunarskýrslur, m.ö.o. eru þeir skyldugir til þess að leggja þær fram, þótt ekki sé formlega óskað eftir þeim, ef boðunarbréf berst frá Skattinum.
Umræddur dómur undirstrikar þannig hversu mikilvægt það er fyrir aðila sem eiga í viðskiptum við tengda aðila yfir landamæri að skjala viðskipti sín með fullnægjandi hætti. Þá er einnig mikilvægt að eiga til skjölunarskýrslur fyrir öll undirliggjandi ár, þar sem skattyfirvöld hér á landi virðast geta nýtt ófullnægjandi skjölun á einu ári til þess að ákvarða verð í viðskiptum á öðru rekstrarári. Má sannanlega velta því upp hvort sú nálgun skili sér í réttum skatti, með réttum hætti.
Höfundur er lögmaður hjá Deloitte Legal.