Fótbolti

Neymar valinn í fyrsta sinn í sau­tján mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar einu af 79 mörkum sínum fyrir brasilíska landsliðið.
Neymar fagnar einu af 79 mörkum sínum fyrir brasilíska landsliðið. Getty/ Pedro Vilela

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar er kominn aftur í brasilíska landsliðið en hann er í hópnum fyrir komandi leiki í undankeppni HM.

Það eru sautján mánuðir síðan að Neymar var síðast með landsliðinu en það var einmitt í þeim leik sem hann sleit krossband í október 2023.

Neymar hefur skorað 79 mörk í 128 landsleikjum fyrir Brasilíu og er markahæsti leikmaðurinn í sögu brasilíska landsliðsins.

Hann hefur lýst yfir áhuga sínum að spila á heimsmeistaramótinu á næsta ári en keppnin fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada. Komandi leikir eru á móti Kólumbíu og Argentínu.

Neymar er nú 33 ára gamall og að spila með æskufélagi sínu Santos í Brasilíu. Hann hefur skoraði beint úr hornspyrnu og beint úr aukaspyrnu í síðustu leikjum liðsins. Hann hefur alls skorað þrjú mörk í síðustu fjórum leikjum Santos.

„Ánægður að vera kominn til baka,“ skrifaði Neymar á samfélagsmiðla sína.

„Það er engin þörf á því að tala um það sem Neymar stendur fyrir. Hann er samt enn að komast í sitt besta form en við skiljum það og tökum mið af því. Við trúum samt að hæfileikar hans geti hjálpað okkur þótt að hann sé ekki í betri æfingu. Hann er líka leikmaður sem liðsfélagar hans í landsliðinu töluðum um að þeir vildu sjá í hópnum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Dorival Júnior.

Brasilíska landsliðið hefur ekki verið sannfærandi í þessari undankeppni HM án Neymar. Liðið er bara í fimmta sæti í Suðurameríkuriðlinum, sjö stigum á eftir toppliði Argentínu. Brassarnir hafa unnið fimm leiki og tapað fjórum í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×