Enski boltinn

Spilaði leik sama dag og hann viður­kenndi að hafa orðið manni að bana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lucas Akins og félagar í Mansfield Town eru í 16. sæti ensku C-deildarinnar.
Lucas Akins og félagar í Mansfield Town eru í 16. sæti ensku C-deildarinnar. getty/Chris Vaughan

Lucas Akins spilaði fyrir enska C-deildarliðið Mansfield Town sama dag og hann viðurkenndi að hafa orðið manni að bana.

Mansfield gerði markalaust jafntefli við Wigan Athletic í C-deildinni í fyrradag. Akins spilaði fyrri hálfleikinn.

Fyrr um daginn hafði hann viðurkennt fyrir rétti að hafa orðið manni að bana með glæfralegum akstri. Fyrir þremur árum ók Akins á hjólreiðamanninn Adrian Daniel nálægt Huddersfield. Daniel var fluttur á spítala þar sem hann lést tíu dögum síðar, þann 27. mars 2022.

Akins játaði sök í málinu í fyrradag og þeim upplýsingum var komið áleiðis til fjölskyldu Daniels. Akins má ekki lengur fá ökuskírteni og ekki heldur keyra á opinberum vegi. Hann mætir aftur fyrir rétt 24. apríl þar sem dómur verður kveðinn upp yfir honum.

Nigel Clough, knattspyrnustjóri Mansfield, vildi lítið tjá sig um málið er hann var spurður út í það eftir leikinn gegn Wigan.

„Við höfum vitað um þetta í nokkurn tíma. Þetta var ekki bara að gerast en við erum ekki í stöðu til að tjá okkur,“ sagði Clough.

Akins, sem er 36 ára, hefur verið í herbúðum Mansfield frá 2022. Hann lék lengi með Burton Albion þar sem hann spilaði meðal annars undir stjórn Cloughs. Akins hefur leikið fjóra leiki og skorað tvö mörk fyrir landslið Grenada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×